Fréttir

Bókaverðir lífshlaupa

Er þjónustan á safninu hraðari í febrúar? Það gæti verið vegna þess að bókavörðurinn þinn er svo orkumikill eftir alla hreyfinguna sem hann er búinn að stunda. Við á Landsbókasafni erum að taka þátt í Lífshlaupinu í fjórða sinn. Við höfum sigrað í okkar flokki (79-149 starfsmenn) undanfarin þrjú ár og ætlum okkur að halda toppsætinu árið 2011.

Frá upphafi höfum við nefnt liðin eftir bókatitlum höfunda. Í ár eru hópar nefndir eftir bókatitlum Guðrúnar frá Lundi, t.d. Dalalíf, Gulnuð blöð, Stýfðar fjaðrir og Afdalabarn.

Starfsmenn eru hvattir til að fara í hálftíma göngu í hádeginu, taka þátt í miðvikudagsjóga og stunda aðra hreyfingu sem hentar að vinnudegi loknum. Það er rætt um fátt annað en útivist og hreyfingu í hádegismatnum og samstarfsmenn rukkaðir um hreyfingu gærdagsins. Við hópumst saman í helgargöngur og þeir allra duglegustu vakna fyrr á morgnana til að ná æfingu eða göngutúr fyrir vinnu – þeir eru líka þreyttustu bókaverðirnir.

➜ Fréttasafn