Sýningar

Kristín Ólafsdóttir

Frumkvöðull kvenna í læknastétt.

Félag kvenna í læknastétt opnaði sýningu um Kristínu Ólafsdóttur lækni í Þjóðarbókhlöðu þriðjudaginn 22. febrúar en félagið gaf Háskóla Íslands nýlega málverk af Kristínu sem er meðal sýningarmuna.

Kristín var fyrsta konan sem stundaði nám við Háskóla Íslands. Hún var þriðja konan sem lauk stúdentsprófi á Íslandi en hún lauk stúdentsprófi utan skóla vorið 1911. Þá um haustið hóf hún nám við nýstofnaðan Háskóla Íslands og lauk embættisprófi í læknisfræði fyrst kvenna á Íslandi árið 1917. Í læknadeildinni kynnist Kristín Vilmundi Jónssyni, og gengu þau í hjónaband árið 1916. Sama ár og Kristín útskrifaðist, var Vilmundur settur héraðslæknir á Ísafirði. Störfuðu þau hjón þar um veturinn en héldu utan til framhaldsnáms í Danmörku og Noregi sumarið eftir.

Kristín var kandídat á fæðingardeild Rigshospitalet í Kaupmannahöfn (ágúst 1918 - apríl 1919 og sept. - nóv. 1919) og á lyflækningadeild Ullevål-sjúkrahússins í Ósló (maí - ágúst 1919).

Að námi loknu var Kristín starfandi læknir á Ísafirði og sinnti fyrst og fremst lyflækningum. Hún þótti mjög góður læknir og lét sér afar annt um sjúklinga sína en þeir geta þess sérstaklega að hún hafi gefið sér tíma til að hlusta á fólk, verið einörð í fasi og að frá henni hafi stafað öryggi.

Kristín var mjög áhugasöm um allt sem laut að heimilisfræðslu enda taldi hún að góð þekking á heimilishaldi stuðlaði að aukinni hollustu og hreinlæti. Kenndi hún m.a. heilsufræði við unglingaskólann á Ísafirði og Húsmæðraskólann Ósk.

Þegar Vilmundur var skipaður landlæknir árið 1931 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og þar opnaði Kristín eigin lækningastofu. Hún vann á stofunni, fór í vitjanir og tók næturvaktir. Kristín var sérstaklega eftirsótt til sængurkvenna enda stafaði frá henni ró sem hafði góð áhrif á konurnar. Þá var hún skólalæknir Húsmæðraskóla Reykjavíkur og læknir upptökuheimilisins í Elliðahvammi.

Samhliða læknisstörfum sínum kom Kristín að félagsmálum. Hún var m.a. einn stofnenda Félags háskólakvenna, sat í barnaverndarnefnd og skólanefnd Húsmæðraskólans í Reykjavík.

Kristín ritaði bækur og greinar um heilsufræði, m.a. Heilsufræði handa húsmæðrum og Manneldisfræði handa húsmæðraskólum. Auk þess var hún afkastamikill þýðandi, þýddi bæði rit um heilbrigðismál og fagurbókmenntir, einkum ævisögur. Kristín rak læknastofuna fram á síðustu æviár og sinnti sínum föstu sjúklingum eftir það. Hún lést í Reykjavík árið 1971 á 82. aldursári.

➜ Eldri sýningar