Fréttir

Steinn Steinarr og ljóðaverðlaun grunnskólanemenda

Steinn Steinarr skáld hefði orðið hundrað árahinn 13. október sl. hefði honum enst aldur. Af því tilefni afhenti fjölskylda Steins og Ásthildar konu hans Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni til varðveislu handrit, bréf og bækur úr fórum Steins.

Meðal þess sem ættingjar Steins afhenda Landsbókasafninu er bókin Dvalið hjá djúpu vatni sem er talin vera frumgerð Tímans og vatnsins og er einungis til í þessu eina eintaki. Í bókinni eru 10 vélrituð ljóð ásamt myndum sem Þorvaldur Skúlason gerði við þau. Steinn ætlaði að gefa bókina út árið 1947 en ekki varð af því.

Í tilefni afmælisins var opnuð sýning á handritum, bókum og öðrum munum úr eigu Steinsá 2. hæð í Þjóðarbókhlöðu. Meðal muna er portrett af Steini sem ekki hefur sést áður opinberlega. Málverkið er eftir þekktan nútíma listamann.

Við athöfnina í Þjóðarbókhlöðuveitti Þórarinn Eldjárn verðlaun sigurvegurum í ljóðasamkeppni fyrir þrjá elstu bekki grunnskóla. Ljóðasamkeppnin er haldin á vegum Íslenskrar málnefndar og Samtaka móðurmálskennara.

➜ Fréttasafn