Fréttir

Aðgengi á einum stað – Samþætt leitargátt

Það er okkur sönn ánægja að gera kunnugt að prófunaraðgangur að Samþættri leitargátt fyrir Ísland hefur verið opnaður á slóðinni http:\\beta.gegnir.is. 

Vefurinn er enn í vinnslu og mun taka breytingum á komandi vikum og mánuðum. Hann er öllum opinn en verður ekki auglýstur almenningi fyrr en að loknu prófunartímabili. Þá verður einnig búið að ákveða endanlegt heiti vefsins.

Samþætt leitargátt fyrir Ísland veitir aðgang á einum stað að fjölbreyttum safnkosti bókasafna á Íslandi ásamt efni valinna sérsafna. Kerfið veitir upplýsingar um safnkost og aðgang að rafrænu efni hvort sem um er að ræða texta eða myndrænt efni. Í prófunarútgáfu verður boðið upp á efni úr Gegni, Tímarit.is, Skemman.is og Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Fljótlega er stefnt að því að gera rafrænar tímaritsgreinar og gagnagrunna í hvar.is leitarbæra í leitargáttinni. Rekstur kerfisins er í höndum Landskerfis bókasafna hf.

Aðdragandi verkefnisins hefur verið nokkur. Segja má að undirbúningsvinna hafi hafist árið 2008 með skoðun sem leiddi í ljós að huga þyrfti að því að koma upp öflugri leitarvél sem hentaði til notkunar hérlendis.  Í kjölfarið var á árinu 2009 farið í svokallað forgreiningarverkefni um Samþætta leitargátt fyrir Ísland en það verkefni var m.a. unnið í samvinnu við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn. Í árslok 2009 undirritaði Landskerfi bókasafna samning við Ex Libris um kaup á Primo hugbúnaðinum, en sá hugbúnaður liggur til grundvallar Samþættri leitargátt fyrir Ísland sem nú hefur litið dagsins ljós.

Markmiðið með því að opna vefinn í prófunaraðgangi í fyrstu er bæði að kynna vefinn fyrir viðskiptavinum okkar og að safna saman athugasemdum og ábendingum um hvað megi betur fara. Það er lengi hægt að laga og bæta vef sem þennan og mikilvægt er að fá fram sem flest sjónarmið. Við munum því á næstu dögum opna könnun á vefnum sem nánar verður tilkynnt um síðar. Einnig hvetjum við ykkur til að senda athugasemdir og ábendingar á netfangið hjalp hjá landskerfi.is.

Leiðsögn um vefinn finnið þið á forsíðu hans.  Einnig er að finna leiðbeiningar á krækjunni Leiðbeiningar og spurningar neðst á vefsíðunni.

Það er von okkar að prófunaraðgangur að Samþættri leitargátt fyrir Ísland á slóðinni http://beta.gegnir.is verði ykkur bæði til gagns og gamans!

➜ Fréttasafn