Fréttir

Kærkomin bókagjöf frá Mexíkó.

Sendiherra Mexíkó sem hefur aðsetur í Danmörku, frú Martha Bárcena Coqui, heimsótti Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn fimmtudaginn 18. ágúst og afhenti safninu kærkomna bókagjöf. Bækurnar eru gjöf til Háskóla Íslands en þær gefa góða mynd af sögu og bókmenntaarfi Mexíkönsku þjóðarinnar en jafnframt eru í bókagjöfinni fræðileg ritverk. Bækurnar munu koma almenningi og háskólastúdentum að góðum notum en þær eru á sviði hugvísinda, samfélags- og náttúruvísinda. Í ræðu, sem Martha Bárcena Coqui hélt við afhendingu bókanna sagði hún Mexíkó vera fjölmennasta spænskumælandi land heimsins og Mexíkönum bæri skylda til að stuðla að útbreiðslu og kynningu á menningu og vísindastarfi spænskumælandi þjóða.

Fulltrúar frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands  voru viðstaddir móttöku bókanna.

Meðal ritanna er 10 binda verk um Mexíkönsku byltinguna, Memoria de las Revolutiones en Mexico, og yfirlitsbókin Diccionario critico de la literatura mexicana (1955-2005). Auk þess má nefna bókina Low-Carbon Development for Mexico sem fjallar um endurnýjanlega orugjafa vistvæna þróunarstefnu. Loks er rit um myndlistarmanninn Diego Rivera og verk hans en nú stendur yfir sýning í Gerðubergi í Breiðholti ljósmyndasýningin Samsekt - Diego Rivera og Frida Kahlo.

 

 

 

 

 

 

➜ Fréttasafn