Fréttir

Bókmenntasmiðja fyrir Alzheimersjúklinga

stendur yfir í Þjóðarbókhlöðu dagana 19.-30. ágúst. Á Frásagnir minninganna  má sjá viðfangsefnin og svipmyndir frá smiðjunni.

Minnismóttaka Landspítala - Háskólasjúkrahúss á Landakoti, Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga (FAAS) og listfræðingurinn Halldóra Arnardóttir hafa skipulagt bókmenntasmiðjuna í samstarfi við Þórarinn Eldjárn, Myndlistarskóla Reykjavíkur og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn.   Fyrirmyndin er sótt til Murcia á Spáni þar sem lista- og menningartengdar smiðjur hafa verið notaðar sem hluta af meðferð Alzheimerssjúklinga, en Halldóra er skipuleggjandi þeirra.

Markmið bókmenntasmiðjunnar eru: að bæta líf og sjálfstraust sjúklingsins sem og fjölskyldna; að tengja þátíð og nútíð í gegnum tilfinningaminnið; stuðla að frekari gildum gegn fordómum gagnvart Alzheimers sjúkdómnum og hvetja til verkefna þar sem mismunandi kynslóðir vinna saman.

Smiðjan hefst á því að Þórarinn Eldjárn les söguna ,,Hvaðefsaga” úr bók sinni Alltaf sama sagan (2009). Eftir lesturinn skapast umræður milli rithöfundarins og sjúklinganna út frá efnivið sögunnar.

Í næstu fjórum tímum smiðjunnar taka myndlistarnemendur við og gerast verkfæri sjúklinganna við að segja frá minningum sínum og byggja upp söguþráð. Þeir hafa það hlutverk að gera a.m.k. eina teikningu í hverjum tíma, eins nákvæma eins og mögulegt er. Efnistökin eru fengin frá smásögunni: tengslum við FJALLIÐ (útsýni yfir á ..., smalamenska, berjamór, útilega, göngur), SAMGÖNGUR (ferðalög, vegir, ökutæki, jarðgöng og brýr) og 17. JÚNÍ HÁTÍÐARHÖLD (fjallkonan, veður, íslenski þjóðbúningurinn og fáninn, sjálfstæðisbaráttan).

Í lok hvers tíma leggur sjúklingurinn mat á afrakstur dagsins; tengsl teikningarinnar og minningarinnar. Lokamarkmiðið er að sjúklingurinn hrópi: ,,Já, það var svona!”

Í síðasta tíma smiðjunnar lesa sjúklingarnir upp sögurnar sínar við hlið Þórarins Eldjárns með aðstoð teikninganna. Áherslurnar hafa breyst, nú eru það þeir sem leika aðalhlutverkin.

Smiðjunni lýkur með útgáfu bókar og sýningu í Þjóðarbókhlöðunni á frásögnum sjúklinganna og teikningum nemendanna.

 

➜ Fréttasafn