Fréttir

Gegnir fær aðgengisvottun

Þegar ráðist var í endurgerð á Gegni síðla á árinu 2007, settu aðstandendur sér það metnaðarfulla markmið að fá aðgengisvottun vegna vefjarins í samræmi við aðgengisstaðla Sjá.

Gátlisti Sjá ehf um aðgengismál tekur mið af alþjóðlegum grunnreglum W3C/WAI en gengur að sumu leyti lengra. Hann er í samræmi við stefnu stjórnvalda um aðgengi að opinberum vefjum á Íslandi.

Endurgerður vefur Gegnis leit dagsins ljós þann 11. júní, en á sama tíma var útgáfa 18 fyrir Gegni gangsett. Skömmu síðar, eða 31. júlí síðastliðinn, var Gegnir vottaður fyrir forgang 1. Nú, þann 1. desember hefur lokaáfanga vottunarferlisins verið náð, með því að Gegnir hefur verið vottaður fyrir forgang 2.

Hægt er að lesa sér nánar til um aðgengisstefnu Gegnis hér.

Með vottunaráfanganum er því markmiði náð að flestir landsmenn, jafn fatlaðir sem ófatlaðir, geti hagnýtt sér Gegni. Með vottuninni er Landskerfi bókasafna búið að uppfylla þau atriði sem þarf til að fá fullt hús stiga ef gerð yrði könnun um aðgengi opinberra vefja líkt og gert var af Sjá og forsætisráðuneytinu árin 2005 og 2007.

➜ Fréttasafn