Fréttir

Framkvæmdir við glugga í Þjóðarbókhlöðu

Síðastliðinn vetur komu upp grunsemdir um myglusveppagróður og örverur á ákveðnum svæðum í Þjóðarbókhlöðu. Fengnir voru tveir aðilar, Rannsóknarþjónustan Sýni og Hús og heilsa, til að taka loft- og snertisýni, skoða aðstæður og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara. Málið var sett í ákveðinn farveg í samstarfi við teymi sérfræðinga og í framhaldi var ráðist í eftirfarandi aðgerðir:

  • Loftræsikerfin fjögur sem eru í húsinu voru öll sótthreinsuð um mitt ár 2011.
  • Trébretti sem notuð voru til að flytja gjafir til úrvinnslu á vinnusvæði voru fjarlægð. Framvegis verða eingöngu notuð krossviðarbretti.
  • Veggur í austurhlið kjallara var þéttur utanfrá. Aðliggjandi gólf var pússað niður í stein og málað með þykkri epoxíhúð.
  • Fjarlægðar voru gluggaáfellur úr vinnustöð á 1. hæð og listarnir innan við karmana voru pússaðir upp og sóttvarðir.

Við skoðun kom í ljós að fleiri gluggar í húsinu voru í ólagi og frágangur á þeim var ekki eins og hann á að vera skv. teikningum. Mjög víða liggur gluggakarmurinn við állista sem heldur glerinu í falsinu. Við rakamyndun lekur rakinn niður á listann og gluggakarmurinn sem er smíðaður úr spónaplötum sýgur rakann í sig og fúnar smám saman. Myglusveppur greindist á nokkrum stöðum í þessum fúa og í listum innan við karminn. Fjárveiting fékkst til að ráðast í hreinsun á öllum gluggum í húsinu og Framkvæmdasýsla ríkisins bauð verkið út í lok árs 2011. Trésmiðjan Akur átti lægsta tilboð og vinna hófst í byrjun árs 2012 þegar fæstir gestir eru í húsinu. Þegar áfellurnar hafa verið fjarlægðar eru listarnir innanvið pússaðir og sótthreinsaðir. Áfellurnar verða síðan settar í á réttan hátt að lokinni viðgerð og endurnýjun.

Framkvæmdir hafa gengið vel og gert er ráð fyrir að þeim ljúki 30. mars n.k. Við þökkum gestum fyrir þolinmæði vegna framkvæmdanna og vonum að með þessu verði Bókhlaðan betri vinnustaður, bæði fyrir gesti og starfsfólk.

➜ Fréttasafn