Fréttir

Óþekkt bréf Jóns Sigurðssonar komið í leitirnar

Þann 1. febrúar barst handritasafni áður óþekkt bréf frá Jóni Sigurðssyni forseta. Bréfið, sem kemur úr einkaeigu, er dagsett þann 20. ágúst 1859 og er til ónafngreinds viðtakenda í Ísafjarðarsýslu. Bréfið er svohljóðandi:

Reykjavík 20. August 1859

Háttvirti vin,
Til þess að sýna einhvern lit á að láta ykkur Ísfirðínga mína heyra eitthvað um alþíng og það sem þar hefir gjörzt, sendi eg yður innlagðan lista yfir mál þau sem fyrir hafa komið á þíngi í þetta sinn með stuttu yfirliti yfir málalokin. Þér gjörið svo vel að sjá um, á hvern þann hátt sem yður sýnist bezt haga, að listi þessi berist um sýsluna, og væri gott ef þér vildið í því skyni ráðfæra yður við sýslumann, og heilsið honum frá mér kærlega um leið, sem og öðrum góðum kunningjum. Ef þið viljið fá alþíngistíðindi handa hreppunum í sýslunni, og þið viljið nota til þess mína hjálp, þá er bezt að sýslumaður fái ósk um það frá hverjum hrepp, eða þá þér, og sendið það annaðhvort forseta alþíngis Jóni Guðmundssyni elleger mér, og munu þið þá fá það sem frekast verður útvegað. Mér væri kært að heyra frá yður við tækifæri, og gæti ég í nokkru verið Ísfirðíngum til styrktar skyldi það vera mér gleði og sönn ánægja. Yðar einlægur vin og heiðrari, Jón Sigurðsson

➜ Fréttasafn