Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Kôshoku ichidai otoko (Líf ásthneigðs manns) (1682)

Ihara Saikaku (1642-1693)

Rithöfundurinn Ihara Saikaku byrjaði feril sinn sem haikai-skáld og færði mikið af óhátíðlegum orðaleikjum og frjálslegum tengingum þessarar bókmenntagreinar inn í skáldsagnaskrif sín. Verk hans fanga Edo-þéttbýlismenningu og ruddalega orku hennar. Líf ásthneigðs manns er fyrsta ukiyo zôshi (skáldsaga hins fljótandi heims) og er Saikaku talin einn merkasti fulltúi þeirrar bókmenntagreinar í Japan. Líf ásthneigðs manns fylgir lífi söguhetjunnar Yonosuke, sem þýðir heimsmaður, þegar hann leitar lystisemda af öllum gerðum í vafasamari hverfum japanskra borga. Þetta er ljósprentun af fyrstu útgáfu, upprunalega gefin út í Osaka 1862 af Aratoya Magobei Kashin, ásamt myndum sem taldar eru vera eftir höfundinn sjálfan.

Líf ásthneigðs manns er eitt af mörgum klassískum japönskum nútímabókmenntaverkum sem eru varðveitt í Landsbókasafni. Þetta eru vandaðar og fallegar endurgerðir, frá upphafi 8. aldar og allt fram til 20. Verkin eru gjöf japanskra hjóna til Háskóla Íslands, en markmið gjafarinnar er að efla áhuga ungra íslenskra námsmanna á japanskri tungu og menningu.

➜ Eldri kjörgripir