Sýningar

Steinn Steinarr

Mánudaginn 13. október var opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðu í tilefni af því að þann dag hefði skáldið Steinn Steinarr orðið hundrað ára hefði honum enst aldur. Þá afhenti Aðalsteinn Garðarsson, fyrir hönd fjölskyldu Steins og Ásthildar konu hans, landsbókaverði handrit, bréf og bækur úr fórum Steins.Meðal þess sem ættingjar Steins afhentu Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er bókin Dvalið hjá djúpu vatni sem er talin vera frumgerð Tímans og vatnsins og er einungis til í þessu eina eintaki. Í bókinni eru 10 vélrituð ljóð ásamt myndum sem Þorvaldur Skúlason gerði við þau. Steinn ætlaði að gefa bókina út árið 1947 en ekki varð af því.Þessi einstaka bók er nú til sýnis á 2. hæð í Þjóðarbókhlöðu ásamt ýmsum handritum, bókum og öðrum munum úr eigu Steins. Meðal þeirra muna er portrett af Steini sem ekki hefur sést áður opinberlega. Myndina málaði Hallgrímur Helgason árið 1988 og gaf Sigfúsi Daðasyni skáldi. Það ár varð Sigfús sextugur og áttatíu ár voru liðin frá fæðingu Steins. Guðný Ýr Jónsdóttir, ekkja Sigfúsar, lánaði myndina á sýninguna.Við athöfn sem haldin var í Þjóðarbókhlöðu af þessu tilefni fór fram verðlaunaafhending í ljóðasamkeppni fyrir þrjá elstu bekki grunnskóla og afhenti Þórarinn Eldjárn sigurvegurunum verðlaunin. Ljóðasamkeppnin var haldin á vegum Íslenskrar málnefndar og Samtaka móðurmálskennara.

➜ Eldri sýningar