Sýningar

Sauðskinn, saffían og shirtingur

Á sýningunni er stiklað á stóru í hundrað ára sögu bókbandsstofu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Nafn sýningarinnar er dregið af þremur tegundum þess efniviðar sem notaður hefur verið við bókband í gegnum tíðina. Í tilefni af afmælinu efnir safnið einnig til hádegisfyrirlestra í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðu í október og nóvember.

Á sýningunni getur að líta bækur í mismunandi bandi og ýmis tæki og tól sem notuð hafa verið við bókband. Þegar bókbandsstofan tók til starfa fyrir hundrað árum var erfitt að fá bækur bundnar inn enda fáir sem höfðu þekkingu til slíkra starfa. Bækur voru í afar misjöfnu ástandi enda að mestu leyti gerðar úr lífrænum efnum sem slitnuðu við notkun margra kynslóða sem oft bjuggu í slæmum húsakynnum. Nokkrir hagleiksmenn tóku að sér bókbandsvinnu fyrir safnið en síðar  voru ráðnir bókbindarar sem sóttu þekkingu sína til Danmerkur.

Þegar Íslendingar fóru að krefja Dani um það að fá íslensku handritin aftur heim báru ýmsir þeirra því gjarnan við, máli sínu til stuðnings, að hér væru hvorki til sérfræðingar í handritaviðgerðum né áhöld og aðstaða til viðgerða. Í framhaldi af því fór Vigdís Björnsdóttir handavinnukennari utan til náms í viðgerðum og keypt voru nauðsynleg tæki.
Síðan hefur bókbandsstofan vaxið og dafnað og gegnir, nú sem fyrr, afar mikilvægu starfi við verndun og viðgerðir handrita og bóka í eigu safnsins.

Sýningin er öllum opin og aðgangur er ókeypis.

Boðskort á sýninguna - Sýningarskrá - Sýningarspjöld á PDF

Myndir frá opnun sýningarinnar:➜ Eldri sýningar