Fréttir

Miðstöð munnlegrar sögu sameinast safninu

Miðstöð munnlegrar sögu var sameinuð Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þann 15. mars 2012 og verður hún sérstök eining á sviði varðveislu og stafrænnar endurgerðar.

Hlutverk Miðstöðvarinnar er að safna, skrá og varðveita heimildir í munnlegri geymd, einkum þær sem varða sögu Íslendinga, og veita almenningi og fræðimönnum aðgang að þeim. Að auki er Miðstöðinni ætlað að efla munnlega sögu sem aðferð í sagnfræði, veita fræðslu um söfnun og notkun munnlegra heimilda, skapa fræðimönnum aðstöðu til rannsókna og standa fyrir fræðilegri umræðu.


Frá sameiningunni

Miðstöð munnlegrar sögu tók til starfa 26. janúar 2007. Hún var sjálfstæð starfseining innan Háskóla Íslands og að stofnun hennar stóðu Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rannsókna­stofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og menntavísindasvið Háskóla Íslands í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Miðstöðin hefur staðið fyrir námskeiðum og fræðslu um viðtalstækni, siðareglur, tæknibúnað og úrvinnslu viðtala svo og um aðferðir munnlegrar sögu. Safn Miðstöðvarinnar hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og má nefna sem dæmi um efni viðtöl og rannsóknargögn varðandi Flatey á Breiðafirði frá 1900 til 1940, Farandverkafólk á Íslandi 1973–1983, Sjósókn í Austur-Landeyjum og Kaupfélagið á Hellu, Iðnaðarsögu Akureyrar, Samtíðarfólk Halldórs Laxness og Hernámið í Mosfellsbæ. Miðstöðin hefur sjálf staðið fyrir söfnunarverkefnum og eru þau helstu: Minningar úr kvennabaráttunni 1965–1980, Reykjavíkursögur, Frásagnir fólks af fjármálakreppunni 2008–2009 og Hvernig var í útlöndum?

Miðstöðin leitast við að gera safnkostinn aðgengilegan með því að yfirfæra hann á stafrænt form. Vefur Miðstöðvarinnar er www.munnlegsaga.is. Þar er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um munnlega sögu, tæknilegar leiðbeiningar, siðareglur og fleira sem hafa ber í huga þegar viðtöl eru tekin.

Aðsetur Miðstöðvarinnar er á fjórðu hæð í Þjóðarbókhlöðunni og er hún opin mánudaga til föstudaga kl. 10:00-12:00 og 13:00-16:00.

Frekari upplýsingar veitir Arnþór Gunnarsson, í síma 525 5775. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið munnlegsaga@landsbokasafn.is.

➜ Fréttasafn