Fréttir

8 sumarstörf

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn auglýsir 8 sumarstörf í tengslum við átaksverkefni Vinnumálastofnunar 2012. Störfin eru ætluð háskólanemum á milli anna eða atvinnuleitendum á skrá hjá Vinnumálastofnun.

Sækja má um störfin hér.

 

1. Flokkun á smáprenti og uppröðun á safnefni

Uppröðun og flokkun í smáprentssafni. Í starfinu felast einnig verkefni í geymslu safnsins. Unnið er í Íslandssafni.

Hæfniskröfur: starfsmaður þarf að vera skipulagður, nákvæmur og samviskusamur.

 

2. Stafrænt bókasafn – íslenskar bækur fyrri alda á netinu

Vinna við stafræna endurgerð (skönnun) á íslenskum bókum frá árunum 1650–1750. Ritin verða aðgengileg á vefslóðinni www.bækur.is. Unnið er á vöktum frá kl. 8-21 alla virka daga, á myndastofu safnsins.

Hæfniskröfur: Starfsmaður þarf að vera vandvirkur, stundvís og geta unnið í hóp.

 

3. Innköllun tónlistarefnis

Eitt meginhlutverk Landsbókasafns er að safna til hins ýtrasta öllu efni sem gefið er út á Íslandi, og gera þarf átak í að innheimta tónlist. Í starfinu felst einnig flokkun og frágangur á tónlistarefni. Unnið er í tón- og myndsafni.

Hæfniskröfur: Starfsmaður þarf að vera skipulagður og geta unnið sjálfstætt, hafa frumkvæði og áhuga á íslenskri tónlist.

 

4. Innsláttur prentaðra handritaskráa í gagnagrunn

Innsláttur prentaðra handritaskráa í gagnagrunn. Auk þess til að flokka, skrá og búa um handritagjafir og annað efni. Unnið er í handritasafni.

Hæfniskröfur: Háskólanemar (t.d. í sagnfræði eða bókasafns- og upplýsingafræði), skipulagðir, nákvæmir og hafa góða tölvukunnáttu.

 

5. Miðstöð munnlegrar sögu

Vinna við frágang og skráningu á gögnum er hafa borist Miðstöð munnlegrar sögu á undanförnum árum.

Hæfniskröfur: Háskólanemar (t.d. í sagnfræði eða þjóðfræði), skipulagðir, nákvæmir og hafa góða tölvukunnáttu.

 

6. Átak í uppröðun, flutningum og tiltekt á safnefni

Uppröðun, flutningar og tiltekt í kjallara og á almennu lesrými safnsins. Í starfinu felast einnig verkefni í geymslu safnsins í Mjódd og hillumerkingar í Þjóðarbókhlöðu.

Hæfniskröfur: starfsmaður þarf að vera drífandi, skipulagður og samviskusamur.

 

7. Tölfræði Skemmunnar

Taka saman tölfræði í Skemmunni (skemman.is) varðandi skil lokaritgerða og hlutfall ritgerða í opnum aðgangi skólaárið 2011-2012. Starfsmaðurinn semur skýrslu þar sem tölfræðin er borin saman við tölfræði skólaársins 2010-2011.  

Hæfniskröfur: að lágmarki 1 árs háskólanám, reynsla af tölfræðiúrvinnslu, mjög góð kunnátta í Excel.

 

8. Vefur um opinn aðgang

Aðstoða við uppfærslu á vef safnsins um opinn aðgang (openaccess.is).

Hæfniskröfur: að lágmarki 1 árs háskólanám,  þekking á vefumsjónarkerfum er nauðsynleg, t.d. CMS Made Simple.

➜ Fréttasafn