Sýningar

Trúmaður á tímamótum – Haraldur Níelsson

Sýning í Þjóðarbókhlöðu í tilefni af því að 140 ár eru liðin frá fæðingu Haralds og öld liðin frá útkomu þýðingar hans á Gamla testamentinu

Haraldur Níelsson var prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands frá stofnun hans árið 1911 og háskólarektor þegar hann lést vorið 1928. Hann var einn helsti boðberi frjálslyndu guðfræðinnar á Íslandi á síðustu öld og einn áhrifamesti kennari guðfræðideildarinnar á sinni tíð. Hann tók virkan þátt í sálarrannsóknum hér á landi sem og í alþjóðlegu starfi spíritista.

Haraldur fæddist á Grímsstöðum á Mýrum 30. nóvember árið 1868 og ólst þar upp. Hann fór ungur að árum til móðurbróður síns, séra Hallgríms Sveinssonar dómkirkjuprests, sem bjó hann undir nám í Lærða skólanum í Reykjavík. Eftir að faðir Haralds lést gekk Hallgrímur honum í föður stað og studdi hann til náms í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann lauk guðfræðiprófi vorið 1897 með hærri einkunn en nokkur Íslendingur hafði fengið um margra ára skeið.

Haustið eftir réð Biblíufélagið Harald til þess að þýða Gamla testamentið á íslensku og fór hann utan í eitt ár í framhaldsnám í hebresku við háskólana í Halle í Þýskalandi og Cambridge á Englandi. Þýðing Haralds vakti miklar deilur þegar hún kom út og var af ýmsum kölluð „Heiðna Biblían“.

Haraldur var prestur á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi frá árinu 1908 til dauðadags og bjó í spítalanum ásamt fjölskyldu sinni seinustu ár sín. Hann þjónaði sem prestur dómkirkjunnar í Reykjavík árið 1909 en varð að segja því embætti af sér af heilsufarsástæðum.

Haraldur tók virkan þátt í starfi bindindishreyfingarinnar og flutti áhrifamiklar ræður til stuðnings banni á innflutningi og sölu áfengis á Íslandi. Árið 1914 hóf hann að flytja predikanir í Fríkirkjunni í Reykjavík sem voru afar vinsælar. Fjöldi fólks um allt land leit á hann sem leiðtoga sinn í trúarefnum og leitaði til hans sem sálusorgara. Hann fór oft í predikunar- og fyrirlestrarferðir um landið og segja má að það hafi orðið kristileg vakning víða þar sem hann fór um. Sagt var um Harald að hann hafi verið brennandi í andanum og talað betur og fegur en aðrir menn.

Á opnunardegi sýningarinnar, 30. nóvember sem var afmælisdagur Haralds, var haldið málþing þar sem sonur hans, Jónas Haralz fyrrverandi bankastjóri, talaði um föður sinn og prófessorarnir Pétur Pétursson, Gunnlaugur A. Jónsson, Erlendur Haraldsson og Gunnar Kristjánsson prófastur fjölluðu um ævi og störf Haralds. Helga Kress prófessor fjallaði um skáldkonuna Guðnýju Jónsdóttur frá Klömbrum en hún var amma Haralds.


Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður býður gesti á sýningu og málþingi um Harald Níelsson velkomna.


Jónas Haralz flutti fyrirlestur um föður sinn.


Mikill fjöldi gesta sótti málþingið um Harald Níelsson.


Sýning um Harald Níelsson í Þjóðarbókhlöðu.


Skrifborð Haralds Níelssonar. Það er nú í eigu Halldórs Haralz.


Í þessum sýningarskáp eru m.a. skrautrituð Biblía í viðhafnarbandi sem nemendur Haralds gáfu honum á tíu ára kennaraafmæli hans í guðfræðideild, Biblía Haralds sem nú er í eigu Maríu Ellingsen og skírnarskál Haralds sem nú er í eigu Haralds Ellingsen.


Myndir af fjölskyldu Haralds.

Veggspjöld

  1. Ætt og uppvöxtur
  2. Haraldur og Bergljót
  3. Nám og störf
  4. Predikari og trúarleiðtogi
  5. Spíritismi
  6. Seinni árin

Sýningarskrá

  1. Kápa
  2. Efnisyfirlit
  3. Meginmál

➜ Eldri sýningar