Fréttir

Aukinn aðgangur að rafrænu efni í Gegni

Um það bil 30 þúsund íslenskar tímaritsgreinar í Gegni eru nú komnar með rafrænan tengil í heildartexta greinanna á vefnum Tímarit.is.

Þetta var gert með vélvirkri hleðslu eftir samanburð og pörun á grundvelli skráningarupplýsinga úr gagnagrunnunum tveimur, Gegni og Tímarit.is og er afrakstur góðrar samvinnu skrásetjara og forritara safnsins. Verkefnið er unnið í samstarfi Lbs-Hbs og Landskerfis bókasafna. Safnið leggur til skrá með pörun á færslunúmerum úr Gegni og vefslóð úr Tímarit.is. Landskerfi bókasafna hleður vefslóðunum inn í Gegnisfærslurnar.

Viðbótum verður framvegis hlaðið inn reglulega samkvæmt sama verkferli. Um síðustu áramót höfðu um það bil  23 þúsund færslur í Gegni rafrænan aðgang að heildartexta. Með þessari viðbót eru þær komnar vel yfir 50 þúsund. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikill virðisauki er að tenglum í rafrænan aðgang og mun þetta verkefni koma að drjúgum notum.

 

➜ Fréttasafn