Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Eldrit séra Jóns Steingrímssonar

Kjörgripur mánaðarins er handritið Lbs 1552 4to. Handritið er svokallað Eldrit séra Jóns Steingrímssonar (1728–1791) á Prestbakka á Síðu. Jón skrifaði handritið árið 1788. Í ritinu fjallar hann um aðdraganda og afleiðingar Skaftáreldanna. Þann 8. júní 1783 hófst eldgos í Lakagígum og stóð það fram í febrúar 1784 með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúa landsins. Mikið af búfé féll og hungursneyð ríkti meðal íbúanna en talið er að ríflega 10.000 manns hafi dáið eða um 20% þjóðarinnar. Hörmungarnar í kjölfar Skaftárelda eru alla jafnan kölluð móðuharðindin og vísar heitið í þá móðu sem lá yfir öllu í tengslum við gosið. Áhrifa gossins gætti einnig í Evrópu og hafa menn jafnvel gengið svo langt að rekja upphaf frönsku stjórnarbyltingarinnar til afleiðinga þessa goss.

Meðal efnis í handritinu er lýsing Jóns að svokallaðri eldmessu sem hann hélt 20. júlí 1783 en talið er að bænþungi Jóns hafi orðið til þess að hraunstraumurinn stöðvaðist og það fór að draga úr gosinu. Jón hefur gjarnan verið nefndur eldklerkurinn vegna þessa.

Ritið var fyrst prentað í fjórða bindi Safns til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju og má ná nálgast þá útgáfu á vefnum bækur.is.

Smellið á myndina hér fyrir neðan til að skoða handritið á handrit.is:

➜ Eldri kjörgripir