Fréttir

Rafrænn aðgangur að 20. aldar bókum í Noregi

Norska þjóðbókasafnið (Nasjonalbiblioteket) og Kopinor, sem eru samtök höfundarétthafa í Noregi, hafa gert með sér samning um útgáfu norskra ritverka frá 20. öld á stafrænu formi. Bókasafnið mun greiða rétthöfum umsamið gjald pr. blaðsíðu. Hægt verður að lesa bækurnar frítt á vef bókasafnsins í tölvum með norskum IP tölum, en ekki verður hægt að vista bækurnar.

Nasjonalbiblioteket hleypti bókavefnum bokhylla.no af stokkunum árið 2009. Þar er nú aðgangur að stafrænum endurgerðum tæplega 50.000 bóka frá síðasta áratug hverrar aldar frá 17. öld til 20. aldar. Með þessum nýja samningi mun fjöldi bóka í stafrænni endurgerð fimmfaldast á næstu fimm árum. Bókasafnið mun sjálft ákveða hvaða bækur verða settar á vefinn, en einstakir rétthafar geta ákveðið hvort verk þeirra verði birt á vefnum eða ekki.

Forstöðumaður bókasafnsins, Vigdis Moe Skarstein, sagði þetta vera mikilvægt skref til að auka vitund lesenda um bókmenntir á norsku og til eflingar noskrar tungu. Þá væri þetta ný leið til að til að kynna norska rithöfunda á Vefnum.

➜ Fréttasafn