Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Þuluvafningur

Á safnið koma reglulega ný aðföng af ýmsum toga. Þann 25. júní 2012 var safninu afhentur vafningur með Þulu Sigurðar Nordal í eiginhandarafriti hans. Þuluna gaf hann Theodóru Thoroddsen til merkis um vináttu þeirra.

Þuluna hefur Sigurður skrifað á langt blað, rúllað upp og sett fallegan bláan silkiborða utan um. Blaðið sem þulan er skrifuð á er 107x11 cm.

Upphaf þulunnar er eftirfarandi:
Gekk ég upp á hamarinn,
sem hæst af öllum ber,
hamingjuna hafði ég,
í hendi mér.

Neðst á blaðinu sést greinilega að lím hefur verið sett á blaðið, það sést einnig á sjálfum borðanum þannig að Sigurður hefur límt blaðið við borðann.

➜ Eldri kjörgripir