Fréttir

Evrópska menningargáttin opin

Nú hefur verið opnaður á Netinu nýr evrópskur menningarvefur europeana.eu. Þarna verða allar helstu menningarperlur Evrópuþjóðanna aðgengilegar öllum sem hafa aðgang að Netinu. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er fulltrúi Íslendinga í þessu sameiginlega verkefni Evrópuþjóðanna.


Á fyrri tímum var sagt að í bókasafninu í Alexandríu væri að finna 70% af þekkingu mannkynsins. Verkefni stafrænu aldarinnar er að gera enn betur og því hafa þjóðir Evrópu ráðist í það mikla verkefni að gera öll helstu menningarverðmæti sín og vísindalegar upplýsingar aðgengilegar öllum á evrópska menningarvefnum europeana.eu.

Á europeana.eu verða bækur, kvikmyndir, tónlist og tímarit, myndlist, fræðirit og vísindalegar rannsóknarskýrslur. Brúin virkar í báðar áttir þannig að um leið og við Íslendingar fáum aðgang að menningarverðmætum annarra Evrópuþjóða fá þær aðgang að stafrænu efni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns s.s. handritum okkar, Íslandskortum, blöðum og tímaritum. Síðar verður opnaður aðgangur að íslenskum bókmenntum, kvikmyndum og öðrum menningarafurðum okkar.

Europeana.eu mun auðvelda almenningi, nemendum og fræðimönnum að afla sér upplýsinga um ólíkustu málefni og bera saman skyld efni frá mismunandi löndum. Hingað til hafa menn yfirleitt þurft að fara víða til að ná í nauðsynlegar upplýsingar vegna rannsókna sinna en á europeana.eu fá þeir sem t.d. eru að rannsaka Rembrandt aðgang að öllum upplýsingum um hann á einum stað og geta skoðað verk hans, bækur og kvikmyndir um hann á Netinu.

➜ Fréttasafn