Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Sigling

Upptakan var gefin út á 78 snúninga hljómplötu árið 1933.

Flutt af Erling Ólafssyni (1910–1934), söngvara sem lést aðeins 24 ára gamall úr berklum, ári eftir að hann söng þetta lag inn á plötu. Hann var bróðir Sigurðar Ólafssonar söngvara.

Höfundur lags: Ernesto De Curtis (1875–1937) fæddist og bjó alla sína tíð í Napolí á Ítalíu. Hann lærði píanóleik við tónlistarháskóla San Pietro a Maiella í Napolí. Ernesto var bróðir skáldsins Giambattista De Curtis sem samdi frumútgáfu ljóðsins við þetta lag,“Torna a Surriento”.

Höfundur ljóðs: Bjarni M. Gíslason (1908–1980) fæddist að Stekkjarbakka í Tálknafirði. Hann var sjómaður frá fermingu til rúmlega tvítugs. Hann var 25 ára þegar fyrsta ljóðabók hans, Jeg ýti úr vör, kom út og sama ár kom „Sigling“ út á plötu. Í kjölfarið sigldi hann til Danmerkur og bjó þar til dauðadags. Hann gaf út ljóðabækur, skáldsögu og fræðirit á dönsku og stundaði kennslu við lýðháskólann í Ry á Jótlandi. Handritamálið var honum hugleikið og hélt hann marga fyrirlestra um það á Norðurlöndum og skrifaði greinar í blöð og tímarit. Íslenska ríkið heiðraði Bjarna með árlegu heiðursframlagi frá því að Danir hófu að senda handritin heim.

Unnið er að því að gera eldri hljóðrit aðgengileg í tón- og myndsafni Landsbókasafns í samvinnu við Tónlistarsafn Íslands.

➜ Eldri kjörgripir