Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Íslenskt ástarljóð

Íslenskt ástarljóð, kápa

Íslenskir tónar gáfu út nóturnar og upptökuna á 78 snúninga hljómplötu árið 1953.

Í augum þínum unaðsbláu,
augunum sem ljóma best,
sé ég landið litla vina,
landið, sem ég elska mest.
Litla, fagra, ljúfa vina,
lífið fer að kalla á þig
mundu þá, að þú ert landið,
og þá hefurðu elskað mig.

Litla, fagra, ljúfa vina,
lífstrú mín er bundin þér,
sjáðu hvernig sólin brosir
sigurglöð við þér og mér.
Allt, sem ég um æfi mína
unnið hefi í ljóð og tón,
verður hismi, ef hjartað, vina,
hefur gleymt að elska frón.

Höfundur texta: Vilhjálmur frá Skáholti

Vilhjálmur frá SkálholtiVilhjálmur frá Skáholti (Vilhjálmur Björgvin Guðmundsson) var fæddur 29. desember 1907 í Skáholti við Bræðraborgarstíg í Reykjavík og kenndi sig jafnan við fæðingarstað sinn. Foreldrar hans voru Sigurveig Einarsdóttir og Guðmundur Guðmundsson sjómaður. Vilhjálmur stundaði ýmis störf samhliða skáldskapariðkun. Fyrstu ljóðabók sína, Næturljóð, gaf hann út 1931. Síðan komu út eftir hann ljóðabækurnar Vort daglega brauð 1935, Sól og menn 1948 og Blóð og vín 1957. Úrval kvæða hans, Jarðnesk ljóð, kom út 1959. Vilhjálmur lést af slysförum 4. ágúst 1963. Árið 1992 gaf Hörpuútgáfan út heildarsafn ljóða Vilhjálms, Rósir í mjöll.

Höfundur lags og flytjandi: Sigfús Halldórsson

Sigfús Halldórsson Sigfús Halldórsson var fæddur 7. september 1920 og lést 21. desember 1996. Hann var leiktjaldahönnuður, tónskáld og dægurlagahöfundur. Sigfús stundaði nám í málaralist og leiktjaldamálun og lauk prófi í þeirri grein frá þekktum listaskóla í London árið 1945. Sigfús starfaði sem bankamaður í Reykjavík og var einnig teiknikennari um árabil. Hann hélt margar myndlistasýningar bæði hér á landi og í útlöndum. Sigfús samdi allan fjöldann af sönglögum, söng og spilaði inn á hljómplötur og samdi einnig tónlist fyrir leikhús og kvikmynd. Meðal frægustu laga hans eru „Dagný“, „Tondeleyó“, „Litla flugan“ og „Vegir liggja til allra átta“, sem hann samdi fyrir kvikmyndina 79 af stöðinni.

Íslenskt ástarljóð, nótur

Birt með leyfi rétthafa.

Unnið er að því að gera eldri hljóðrit aðgengileg í tón- og myndsafni Landsbókasafns í samvinnu við Tónlistarsafn Íslands.

➜ Eldri kjörgripir