Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Jólamerki Thorvaldsensfélagsins hafa lengi sett svip á desember

Thorvaldsensfélagið var fyrsta kvenfélagið sem stofnað var í Reykjavík, þann 19. nóvember  1875. Tildrögin voru þau að ungum stúlkum, sem fengið var það verkefni að skreyta Austurvöll þegar styttan af Bertel Thorvaldsen var sett þar niður, þótti svo gaman að þær vildu halda áfram að hittast. Fyrstu verk þeirra  voru að hjálpa börnum frá fátækum heimilum og framar öllu að hjálpa fátækum stúlkum að mennta sig til munns og handa. Thorvaldsensfélagið var líknarfélag í aðra röndina og baráttutæki fyrir réttindum stúlkna og kvenna í hina.

Fundagerðabækur eru varðveittar  á handritasafni Landsbókasafns Íslands, og þar eru einnig varðveittar frummyndir af sumum jólamerkjum félagsins. Thorvaldsenskonur gáfu fyrst út jólamerki árið 1913 í fjáröflunarskyni fyrir góðgerðarstarfsemi ýmiskonar og hafa jólamerki Thorvaldsensfélagsins því komið út í 100 ár.  Margir af helstu listamönnum þjóðarinnar hafa ljáð félaginu myndir sínar eða málað þær sérstaklega til að setja á jólamerkin. Þau hafa komið út árlega ef undan er skilið árið 1917 þegar skipinu sem flutti jólamerkin til landsins var sökkt en þá geisaði fyrri heimstyrjöldin. Merkið fyrir árið 1917 var eftir Þórarin B. Þorláksson. Það var svo prentað með ártalinu 1918 og notað ári síðar. Hundraðasta merkið er því gefið út í ár. Barnauppeldissjóður Thorvaldsenfélagsins sér um útgáfu jólamerkjanna.

Hér má sjá nokkrar frummyndanna sem varðveittar eru á handritasafni Landsbókasafns:

1918 Þórarinn B. Þorláksson

1930 - Tryggvi Magnússon

1938 – Ágústa Pétursdóttir Snæland

1956 – Barbara Árnason

1979 – Finnur Jónsson

➜ Eldri kjörgripir