Sýningar

„Að vita meira og meira“

Brot úr sögu almenningsfræðslu á Íslandi.

Sýning í tilefni af 100 ára afmæli Kennaraskóla Íslands og fyrstu fræðslulaganna 23. maí -31. ágúst.

Að þessu sinni er sumarsýning safnsins tileinkuð almenningsfræðslu á Íslandi í 100 ár en árið 2008 eru 100 ár liðin frá því að Kennaraskóli Íslands tók til starfa og sömuleiðis er öld liðin frá setningu fyrstu fræðslulaganna. Sýningin veitir innsýn í skólastarf, menntun og þróun kennarastéttarinnar og áhrif hennar á daglegt líf og samfélag. Sérstakur gaumur er gefinn að framlagi kennslukvenna og áhrifum þeirra á samfélagsmynd liðinnar aldar og þætti kvenna í heilsugæslu skólabarna.

Um leið og sögð er saga skóla og menntunar hér á landi í heila öld eru sýndar svipmyndir og munir sem lýsa tíðarandanum á mismunandi tímabilum liðinnar aldar. Fræðsla barna og ungmenna var í örri þróun og víða hafði risið myndarlegt skólahúsnæði. Með fræðslulögunum og menntun kennara var þessi þróun sett í ákveðinn farveg og öllum sveitarfélögum gert skylt að halda skóla fyrir börn og ungmenni 10-14 ára eða sjá þeim fyrir fræðslu. Foreldrum og forráðamönnum var líka gert skylt að senda börn sín í skóla eða sjá til þess að þau fengju kennara eða kennslu í einhverri mynd. Þar með lauk margra ára deilu milli þeirra sem töldu íslenskri menningu best borgið með heimafræðslu og hinna sem töldu jafnvel almenningsfræðsluna aleflingu sálar- og líkamskrafta mannsins.

Kennaraháskóli Íslands, Kennarasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn standa sameiginlega að sýningunni sem er sumarsýning safnsins og stendur til 31. ágúst n.k. Sýningin er opin kl. 9-17 virka daga og kl. 10-14 á laugardögum.

 

 Á sýningunni eru ýmsir munir úr skólastarfi í heila öld sýndir í sýningarskápum og sagan er einnig sögð í máli og myndum á sýningarspjöldunum

Skoða sýninguna á pdf-formi.

➜ Eldri sýningar