Sýningar

Eitt lag enn og ólympíuleikarnir í Peking

Sýning á völdum hljóðritum úr tón- og myndsafni og Ólympíuleikarnir í Peking

Tvær sýningar eru nú á ganginum í Þjóðarbókhlöðunni.

Önnur þeirra fjallar um íslenska tónlist og má þar sjá dansleikja-, tónleika- og plötuauglýsingar íslenskra hljómsveita og tónlistarmanna frá fyrri hluta 20. aldar til dagsins í dag, meðal annars veggspjöld frá blómatíma hljómsveitanna Dáta, Flowers og Hljóma, en einnig auglýsingar yngra tónlistarfólks eins og Bjarkar, Páls Óskars og Emilíönu Torrini. Einnig eru til sýnis íslensk plötu- og geisladiskaalbúm frá rúmlega hálfrar aldar tímabili og er fróðlegt að sjá hvernig tíðarandi og tíska birtist í þeim. Þar sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er nú framundan er einnig sýning á hljóðritum með framlagi Íslendinga til keppninnar.Sýningin er öðrum þræði kynning á tón- og myndsafni Landsbókasafnsins en útgefendum tónlistar ber að skila eintökum af útgefnu efni til varðveislu í safnið.

Ljósmyndir frá Ólympíuleikunum í Peking

Á hinni sýningunni sem nú hefur verið opnuð á ganginum eru ljósmyndir frá Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Á myndunum má sjá margar af helstu íþróttastjörnum Ólympíuleikanna spreyta sig auk þess sem umfangi og umgjörð leikanna eru gerð góð skil í fallegum og litríkum ljósmyndum.

Allir eru velkomnir á sýningar í Þjóðarbókhlöðunni og aðgangur er ókeypis.

➜ Eldri sýningar