Sýningar

Tvær fagrar sálir

Föstudaginn 6. maí voru opnaðar tvær áhugaverðar sögusýningar um Jóhann Jónsson skáld frá Ólafsvík og Sigríði Jónsdóttur frá Vogum sem var móðir Nonna (Jóns Sveinssonar rithöfundar). Lifandi myndum af ævi þeirra Jóhanns og Sigríðar er brugðið upp á sýningunum sem samanstanda af texta og ljósmyndum ásamt gömlum munum sem tengjast viðfangsefninu. Líf þeirra beggja var oftar en ekki þungur róður en æðri gildi voru þeirra haldreipi, fegurðin og lífstrúin.

,,Jóhann Jónsson - sögubrot úr ævi skálds" er yfirskrift sýningarinnar um skáldið, líf hans, verk, samferðamenn og tíðaranda. Jóhann fæddist árið 1896 á Staðastað en var uppalinn í Ólafsvík. Hann flutti ungur til Leipzig í Þýskalandi og barðist við illvíg veikindi lungann úr ævinni. Þó Jóhann léti ekki eftir sig margar fullunnar ritsmíðar helgaði hann líf sitt engu að síður ritlistinni, hafði afburða frásagnarhæfileika og gaf snemma fyrirheit um stórkostleg afrek. Hann var öflugur bréfritari og skrifaðist á við marga framámenn í íslensku menningarlífi í upphafi 21. aldarinnar, má þar m.a. nefna Kristin E. Andrésson, Jón Leifs, Gunnar Gunnarsson og Arnfinn Jónsson að ógleymdum Halldóri Laxness. Jóhann lést árið 1932, aðeins 35 ára gamall, ,,frá sál sinni ófullkveðinni, æfi sinni hálfnaðri og verkum sínum mikils til óskrifuðum" eins og Kristinn E. Andrésson komst að orði forðum. Ljóðið Söknuður er e.t.v. kunnast verka Jóhanns en upphafslína þess er harmi blandin eins og líf hans sjálft: ,,Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað". Höfundur sýningarinnar er Elín Una Jónsdóttir, íslenskufræðingur og safnvörður í Snæfellsbæ.

,,Árroð frá vaknandi stund" er yfirskrift sýningarinnar um Sigríði Jónsdóttur, móður Nonna. Sigríður var fædd að Reykjahlíð við Mývatn árið 1826 en ólst upp í Vogum í sömu sveit. Hún kynntist snemma erfiði lífsins og sárum raunum, missti föður sinn ung að árum og seinna þrjú börn sín úr barnaveiki. Eiginmann sinn missti hún langt fyrir aldur fram frá sex börnum en flutti skömmu eftir það til Vesturheims. Þar giftist hún aftur og lést í hárri elli árið 1910 eftir 40 ára dvöl í Kanada. Sigríður var mörgum kostum prýdd, þótti greind og víðsýn, vel lesin og ritfær. Eftir hana liggur merkt bréfasafn sem lýsir ástríkri eiginkonu og umhyggjusamri móður en tjáningin einkennist af næmi á stund og stað og læsi á mannlegar tilfinningar. Síðast en ekki síst ber sá minnisvarði sem Nonni hefur reist henni í bókum sínum göfugri sál vitni. Yfirskrift sýningarinnar er tekin úr ljóði Þorsteins Þorsteinssonar en Sigríður mun hafa lagt sig fram um að miðla börnum sínum sterkri trú á æðri gildi lífsins, ,,en aðeins það æðsta er vér þráum er árroð frá vaknandi stund." Sýningin var unnin af Nonnanefnd Zontaklúbbs Akureyrar. Ritstjóri var Björg Bjarnadóttir en grafísk hönnun var í höndum Aðalsteins Svans hjá Stíl.

➜ Eldri sýningar