Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Passíusálmar. JS 337 4to.

Um þessar mundir er þess minnst að 400 ár eru liðin frá fæðingu Hallgríms Péturssonar (1614-1674) prests og skálds. Eftir hann liggur margvíslegt efni en þekktastir eru Passíusálmarnir. Þetta ástsæla trúarrit Hallgríms er samansafn 50 ljóðatexta og í því kannar Hallgrímur píslarsögu Krists, frá því að Kristur kemur til Getsemane og fram að dauða hans og greftrun. Það tók Hallgrím þrjú ár að ljúka við verkið og fyrsta prentaða útgáfan kom út 1666. Passíusálmarnir hafa verið gefnir út yfir 80 sinnum á Íslandi og verið þýddir á ótal tungumál. Þeir eru táknrænir fyrir páskahátíðina á Íslandi og það markar upphaf páskaföstunnar þegar þeir eru lesnir upp í útvarpi, einn sálmur á dag.  Auk þess eru sálmarnir ýmist lesnir upp eða sungnir í mörgum kirkjum landsins á föstudeginum langa. Handritið JS 337 4to er frá 1659, skrifað af Hallgrími og er einn af fjársjóðum Handritasafnsins. Skáldið gaf Ragnheiði, dóttur Brynjólfs Sveinssonar biskups handritið, árið 1661.

Smellið á myndirnar til að skoða handritið á Handrit.is:

➜ Eldri kjörgripir