Sýningar

Bessastaðaskóli 1805-2005


Í forsal þjóðdeildar Landsbókasafns er lítil sýning helguð Bessastaðaskóla, en í ár eru liðin 200 ár frá stofnun hans. Á sýningunni eru fágætisbækur sem komu frá skólasafni Lærða skóla þ. á m. helgisiðabók frá 1513 og námsbækur skólapilta. Einnig eru á sýningunni þrjú myndverk eftir Jón Helgason biskup (1866-1942) sem varðveitt eru í Árbæjarsafni. Á þeim má sjá Hólavallarskóla, forvera Bessastaðaskóla, og Reykjavík á tímum Lærða skólans.

Hólavallarskóli
Forveri Bessastaðaskóla, Hólavallarskóli var stofnaður 1785 eftir sölu biskupssetursins í Skálholti, en andvirði þess rann til reksturs skólans og laun kennara. En því miður hafði skólinn lítið umleikis og allar aðstæður bágbornar. Húsnæðið var lélegt og nýttist illa. Það var einlyft og kjallaralaust með háu risi og gluggar voru fáir og litlir. Þakið var smíðað úr einföldum borðum og listar negldir yfir samskeyti og engin upphitun var í húsinu.

Aðbúnaður nemenda og kennara var afar slæmur. Kennslustofa var á neðri hæð, í norðurenda þess var rektorsíbúð og í risi geymsla og svefnskáli pilta sem var einn geimur, 18-20 álnir á lengd og átta á breidd. Þar var enginn ofn og engin þægindi aðeins tíu rúm ætluð 30 piltum. Enda var það svo um aldamótin 1800 að skólapiltar voru með skyrbjúg og sumir hverjir lágu vikum saman í fletum sínum.

Veikindi skólapilta og lélegur húsakostur varð til þess að skömmu eftir aldamótin 1800 var farið að huga að flutningi skólans. Árið 1804 var skólinn fluttur í amtmannsíbúðina á Bessastöðum og vegna breytinga á húsnæðinu var enginn skóli veturinn 1804-05.

Bessastaðaskóli
Stiftamtmannshúsið var traustlega byggt og hlýtt en hentaði þó alls ekki til skólahalds vegna byggingalags. Bessastaðaskóla átti aldrei að vera annað en „Interims-skole“ eða bráðabirgðaskóli þar til búið væri að finna varanlegum skóla stað.

Í Bessastaðaskóla voru 27 piltar í tveimur bekkjardeildum, efri og neðri bekk. Á síðustu árum skólans voru þeir um 40 talsins, 17 eða 18 í neðri bekk og 22 eða 23 í efri bekk og var þá þétt setið. Enn fremur voru oft á tíðum svo nefndir aukalærisveinar allt frá tveimur upp í tíu. Það voru því alls 50 piltar í Bessastaðaskóla síðasta vetur hans, þrátt fyrir að skilyrði fyrir inntöku slíkra sveina væri að við komu þeirra sköpuðust ekki þrengsli í skólanum.

Í Hólavallarskóla voru tveir kennarar; Skólameistari (Rektor) og Locatur Heyrari (conrektor), en veturinn 1802-03 voru þeir þrír: rektor, 1. kennari og 2. kennari. Þessi tala hélst við flutninginn til Bessastaða og var óbreytt til ársins 1822 er mælingafræði (jarðmælingafræði) bættist við námsskrána og að fjórði kennarinn, Björn Gunnlaugsson stærðfræðingur, hóf störf við skólann.

Fyrsti rektor Bessastaðaskóla var Steingrímur Jónsson guðfræðingur, 1. kennari Guttormur Pálsson, síðar prestur í S-Múlasýslu og 2. kennari Jón Jónsson guðfræðingur. Árið 1810 gerðist Steingrímur prestur í Odda og síðar biskup. Við stöðu rektors tók Jón Jónsson lektor og gengdi hann stöðunni til ársins 1846. Við kennarastöðu hans tók Hallgrímur Scheving doktor í heimspeki. Einnig kenndi við skólann á árunum 1817-19 Árni Helgason guðfræðingur. Við stöðu hans tók Sveinbjörn Egilsson grísku-, sögu- og dönskukennari og síðar rektor Lærða skólans. Þá kenndu við skólann um tíma Jón Jónsson námsmaður, en hann fórst árið 1817 með póstskipinu Dorothe undir Svörtuloftum og Gísli Magnússon námsmaður, en hann kenndi við skólann 1845-46, í stað Sveinbjarnar sem var erlendis þennan vetur.

Námsgreinar skólans voru að mestu leyti hinar sömu og kenndar voru í dönskum skólum, nema franska og þýska. Greinarnar sem kenndar voru eru þessar: lærdómur kristilegrar trúar (síðar guðfræði), skilgreining Nýja Testamentisins, hebreska, latína, gríska, danska, mannkynssaga, landafræði, reikningur og mælingafræði. Skyndipróf voru í hverri viku.

Prófin í Bessastaðaskóla voru þrjú yfir veturinn. Það fyrsta, haustpróf, var latneskur stíll og eftir árangri í því prófi var piltum raðað í bekkjunum. Þessi svokallaða röð var virðingastigi skólapilta. Þá voru janúarpróf, en úrlausn þeirra höfðu ekki áhrif á meðaleinkunnir piltanna. Vorprófin voru bæði munnleg og skrifleg og kom biskup til skólans sem prófdómari. Allt snérist um þessi próf því þá voru gefnar opinberar einkunnir.

Þrátt fyrir að í Bessastaðaskóla væru ekki allar námsgreinar í boði sem kenndar voru í sambærilegum skólum erlendis verður árangur piltanna að teljast viðunandi, því þeir piltar sem sóttu erlenda háskóla stóðu sig vel í þeim greinum sem kenndar voru í Bessastaðaskóla.

Þann 7. janúar árið 1846 skipaði konungur svo fyrir að skólinn skyldi fluttur til Reykjavíkur og settur þar í nýju húsi þar sem Menntakólinn í Reykjavík er nú og nefndur var Lærði skólinn.

➜ Eldri sýningar