Sýningar

Brynjólfur Sveinsson og 17. öldin í sögu Íslendinga

Þann 14. september 2005 voru 400 ár liðin frá fæðingu Brynjólfs Sveinssonar biskups (1605-1675). Brynjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í sögu Íslands, sem leiðtogi kirkjunnar, veraldlegur höfðingi, heimspekingur, fræðimaður, latínuskáld og frumkvöðull á sviði mennta og kirkjustjórnar. Hann hafði forgöngu um að safna handritum og lét skrifa þau upp. Sem biskup kom hann m.a. að galdramálum í samtíð sinni, auk þess sem fræg er harmsaga sú sem varð vegna samdráttar dóttur hans Ragnheiðar og Daða Halldórssonar. Það leikur enginn vafi á því að Brynjólfur Sveinsson er eitt af stórmennum Íslandssögunnar og því mikilvægt að hans sé minnst á tímamótum eins og þessum.

Sýningin er í þremur hlutum:Sá fyrsti fjallar um einkahagi Brynjólfs, ætt hans og fjölskyldulíf, og svo nám hans og helstu störf. Annar hluti fjallar um fræðimennsku Brynjólfs og menntun þjóðarinnar á 17. öld. Þriðji hlutinn fjallar um Brynjólf sem höfðingja bæði í trúarlegum málum og stjórnmálum landsins á hans dögum.

➜ Eldri sýningar