Sýningar

Norræni skjaladagurinn

Laugardaginn 12. nóvember 2005 er Norræni skjaladagurinn. Dagurinn, sem er árlegur kynningardagur norrænna skjalasafna, var fyrst haldinn árið 2001. Annað hvert ár er hann helgaður sameiginlegu þema, en þess á milli hafa söfnin frjálsar hendur um efnisval. Mörg skjalasöfn efna til sýninga á völdum skjölum sem tengjast viðfangsefninu. Heimasíða skjaladagsins er www.skjaladagur.is.

Í ár er þema skjaladagins „Identitet“ sem mætti útleggja á íslensku sem sjálfsmynd eða sjálfsvitund. Íslensk yfirskrift dagsins er „Við“.

Sett hefur verið upp lítil sýning á annarri hæð Þjóðarbókhlöðunnar þar sem sjá má ýmis gögn sem eru varðveitt á handritadeild Landsbókasafns og tengjast þema dagsins á einn eða annan hátt. Litið er á síðari hluta nítjándu aldar og dregin fram gögn úr fórum skólapilta Lærða skólans, kvenna, presta, vesturfara og Íslendinga í Danmörku.

Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga erindi á skjalasöfn. Fólk er því hvatt til að hafa samband við sitt héraðsskjalasafn, Þjóðskjalasafn eða handritadeild Landsbókasafns ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við.

Sýningin stendur yfir til 18. nóvember.

➜ Eldri sýningar