Sýningar

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar

Nú í ár eru liðin 160 ár frá stofnun handritadeildar safnsins. Árið 1846 var sett á stofn sérstakt handritasafn innan Landsbókasafns, með sama sniði og var í Konungsbókhlöðu Dana í Kaupmannahöfn og hliðstæðum söfnum í öðrum nágrannalöndum. Var þetta jafnframt fyrsta handrita¬safn, sem stofnað var til opinberlega hér á landi. Því áskotnaðist að mestum hluta ritað efni frá síðari tímum eða eftir daga hins mikla safnara Árna Magnússonar, sem lést árið 1730, en þó einnig nokkurt magn eldri rita, er ekki höfðu ratað í hendur Árna eða annarra safnenda erlendis.

Árið 1877 var keypt til Landsbókasafns mikið handritasafn í eigu Jóns Sigurðssonar, og var það afhent að honum látnum á árunum eftir 1879. Í safni Jóns var að finna það handrit sem hefur verið talið einn mesti dýrgripur safnsins og jafnframt þessarar þjóðar frá síðari öldum, eiginhandarrit séra Hallgríms Péturssonar af Passíusálmunum með ártalinu 1659. Mun það einnig elsta eiginhandarrit að skáldverki, sem varðveitt er undirritað og ársett af höfundi. Þá er þetta handrit eina uppskrift Hallgríms, sem komið hefur í leitirnar af sálmunum, en vitað er að hann ritaði að minnsta kosti fimm önnur handrit af þeim. Fjögur þeirra sendi hann konum, eiginkonum eða dætrum hollvina sinna, og hefur þess verið getið til að hann hafi treyst þeim betur til að kunna að meta eða kannski öllu fremur varðveita þetta höfuðkvæði sitt en sjálfum körlunum. Hafa síðar verið leidd að því rök, að hér sé einmitt komið það handrit, sem Hallgrímur sendi hinni sögufrægu Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups í Skálholti.

Þjóðin lærði snemma að meta Passíusálmana. Voru þeir fyrst prentaðir árið 1666, og reyndar tvisvar á meðan Hallgrímur lifði, en alls 5 sinnum á 17. öld. Á 18. öld komu síðan út 16 útgáfur og á 19. öld 19 útgáfur, en samtals eru þær nú orðnar 83 að tölu – það er heildarútgáfur sálmanna. Eru þetta margfalt fleiri útgáfur en komið hafa út af nokkurri annarri bók hér á landi.

Þrjár útgáfur Passíusálmanna hafa nokkra fræðilega sérstöðu. Það eru textaútgáfa Finns Jónssonar frá 1924, ljósprentun handritsins með eftirmála Páls Eggerts Ólasonar 1946, og loks útgáfa Landsbókasafns 1996, sem er jafnframt fyrsta handritaútgáfa safnsins sjálfs á eigin varðveisluarfi. Er þar allt á sömu síðu: mynd af handritinu, stafréttur texti og lestexti með nútíma stafsetningu, sem og lesbrigði neðan máls úr öðrum þeim handritum og frumprentuninni, er varpa ljósi á glímu skáldsins við texta sinn, eða með öðrum orðum sköpun þessa ódauðlega orðlistaverks. Áður en þessi útgáfa var gerð lagfærði forvörður safnsins handritið sjálft og fjarlægði meðal annars styrktarræmur sem límdar höfðu verið á jaðrana og sums staðar huldu stafi eða heil orð. Umsjón með textanum hafði Ögmundur Helgason ásamt þeim Skúla Birni Gunnarssyni og Eiríki Þormóðssyni. Þá tók Ögmundur saman umfjöllun um handrit og útgáfu til skýringar fyrir lesendur. Auk þess gerði Ólafur Pálmason bókfræðilega skrá um útgáfur þessara þjóðkæru sálma.

Þrátt fyrir svo margar útgáfur Passíusálmanna og sjálfsagt margar í tiltölulega stóru upplagi, miðað við sinn tíma, er frá því að segja að einnig eru varðveittar yfir 30 uppskriftir eða handrit af sálmunum eftir hinum prentuðu bókum, sem flestöll eru rituð af ónafngreindum mönnum. Er þetta margfalt met – ef svo má að orði komast – þótt fleiri dæmi séu um uppskriftir á prentuðu efni – og undirstrikar enn og aftur ást þessarar þjóðar á sálmunum. Þá er þess að geta að margar uppskriftanna eru óvenju fallegar, með stafaskreytingum sem lýsa alúð skrifaranna við viðfangsefni sitt.

➜ Eldri sýningar