Sýningar

Myrkraverk og misindismenn – Reykjavík í íslenskum glæpasögum

Reykjavík hefur löngum verið vinsælasta sögusvið íslenskra glæpasagnahöfunda. Leyndardómar Reykjavíkur eftir Valentínus hétu tvær glæpasögur sem komu út á árunum 1932–1933 þar sem dregin var upp mynd af spilltu borgarsamfélagi þar sem ólöglegt áfengi, lostafullar konur og fjárhættuspil leyndust í hverju skuggasundi og eftir það varð ekki aftur snúið. Langflestir íslenskir glæpasagnahöfundar hafa skapað sína eigin Reykjavík þar sem myrkraverk og misyndismenn leynast, allt frá Granda upp í Grafarholt.

Saga íslenskra glæpasagna er lengri en margur hyggur. Fyrsta íslenska glæpasagan er talin vera smásagan Íslenzkur Sherlock Holmes eftir Jóhann Magnús Bjarnason sem kom út 1910. Síðan hafa komið út margar og ólíkar sögur; fyrst fáar og strjálar en núna síðustu árin koma margar sögur út á hverju ári. Íslensk glæpasagnahefð er gríðarlega fjölbreytt þótt sögurnar séu hlutfallslega fáar; við eigum drykkfellda blaðamenn, fjölþreifna lögfræðinga, ævintýragjarna jarðfræðinga og að sjálfsögðu vænan skammt af löggum með meltingartruflanir. Saga íslenskra glæpasagna er því – miðað við höfðatölu – efnismikil og spennandi.

Um sýninguna

Sýningin Myrkraverk og misindismenn – Reykjavík í íslenskum glæpasögum er sett upp af Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og Eddu-útgáfu.

Sýningin er hönnuð af Lilju Gunnarsdóttur ljósmyndara og teiknara. Hún útskrifaðist með MFA í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York og hefur síðan starfað sjálfstætt.

Textahöfundur sýningarinnar er Katrín Jakobsdóttir íslenskufræðingur en BA-ritgerð hennar Glæpurinn sem ekki fannst. Saga og þróun íslenskra glæpasagna kom út hjá Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands árið 2001. Í meistaraprófsritgerð sinni fjallaði Katrín um samfélagsmynd íslenskra glæpasagna. Katrín starfar við útgáfumál.

Teikningar úr Vetrarborginni eru eftir Halldór Baldursson myndlistarmann. Upphaflega var Halldór beðinn að gera málverk en honum fannst eðlilegra að halda sig við söguformið og því varð myndasagan fyrir valinu. Halldór ákvað að velja síðurnar kerfisbundið, síðu 1, 100, 200 og 300. Með því kembdi hann söguna á hlutlausan hátt. Það reyndist ekki vera neinn skortur á atburðum á þessum síðum og þær gefa góða heildarmynd af sögunni. Teikningar Halldórs eru til sölu.

Umsjónarmaður sýningarinnar er Emilía Sigmarsdóttir fagstjóri menningar og miðlunar á Landsbókasafni.

➜ Eldri sýningar