Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Útsýn – þýðingar á bandarískum skáldskap

Útgefendur Einar Benediktsson og Þorleifur Bjarnason.

Um þessar mundir eru 150 ár frá fæðingu skáldsins Einars Benediktssonar. Árið 1892 réðist Einar í það ásamt Þorleifi H. Bjarnasyni kennara að gefa út nýtt tímarit sem þeir kölluðu Útsýn. Ritið átti að stuðla að aukinni þekkingu Íslendinga á erlendum bókmenntum og stóð til að það kæmi út sex sinnum á ári. En aldrei kom þó út nema eitt hefti og var það helgað bandarískum skáldskap. Auk óbundins máls eru í því fimm ljóðaþýðingar eftir Einar, þar af eru þrjár þýðingar á ljóðum eftir rómantíska skáldið Longfellow, hin þekkta þýðing hans á söguljóðinu Hrafninum eftir Edgar Allan Poe og, það sem mestum tíðindum sætir, þýðing á hluta af Grasblöðum eftir Walt Whitman. Síðastnefnda kvæðið er í frjálsu formi og er þýðing Einars elsta dæmið um rímlaust ljóð í síðari tíma bókmenntum á íslensku. (Heimild: Guðjón Friðriksson, Einar Benediktsson I, 1997).

Sjá má ritið hér: http://baekur.is/is/bok/000403361/Utsyn

➜ Eldri kjörgripir