Sýningar

Sú þrá að þekkja og nema

Jónas Jónasson frá Hrafnagili

Sýning í Þjóðarbókhlöðu til heiðurs Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili (1856-1918) í tilefni af því að 150 ár eru liðin frá fæðingu hans.

Sýningin var opnuð 22. september 2006 og stendur til 31. desember 2006.

Hinn 7. ágúst 2006 voru liðin 150 ár frá fæðingu Jónasar Jónassonar prests og fræðimanns sem kenndi sig við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit. Jónas var afkastamikill rithöfundur, þýðandi og fræðimaður, eins og verk hans, Íslenskir þjóðhættir, bera vott um. Á árunum 1947-49 komu út á Akureyri, Rit Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili I-III, sem Jónas og Halldór Rafnar gáfu út. Þar er að finna skáldsögur og fleiri sögur Jónasar. Fræðslu- og menningarmál voru Jónasi hugleikin og hefði hann ef til vill kosið að helga sig eingöngu rit- og fræðistörfum – en þess var ekki kostur. Jónas ferðaðist aldrei utanlands, en þrátt fyrir það eignaðist hann fjölda erlendra vina og skrifaðist á við þá. Einn þeirra var H.F. Feilberg, danskur prestur og fræðimaður sem ritaði meðal annars Dansk bondeliv (1910). Jónasi var boðið að skrifa í afmælisrit tileinkað Feilberg, Festskrift til H.F. Feilberg fra nordiske sprog - og folkemindeforskere på 80 års dagen den 6. august 1911. Grein hans þar bar heitið „Um fæðingu og dauða í þjóðtrú Íslendinga“. Árið 1914 fékk Jónas styrk frá Carlsbergsjóðnum í Kaupmannahöfn til að rannsaka enn frekar íslenska þjóðhætti og gefa út á bók.

Ögmundur heitinn Helgason forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns, skynjaði þörfina fyrir að minna á og draga fram verk Jónasar, en í handritadeild Landsbókasafns, Héraðsskjalasafninu á Akureyri og í Dansk Folkemindesamling í Kaupmannahöfn eru varðveitt handrit, bréf og seðlasafn að Íslenskum þjóðháttum. Ögmundur var búinn að kynna sér vel það efni sem er varðveitt í handritadeild safnsins og í Dansk Folkemindesamling og þá sérstaklega seðlasafnið sem þar er varðveitt. Í ljós kom að hluti seðlanna, þeir sem lýsa sjávarháttum Íslendinga, var mönnum ókunnur og hugðist Ögmundur kynna það í formála fjórðu útgáfu Íslenskra þjóðhátta sem koma mun út síðla árs 2007. Ögmundi auðnaðist ekki að ljúka því verki, en hann féll frá 8. mars 2006.

Undirbúningur að sýningu og málþingi til minningar um Jónas frá Hrafnagili hófst haustið 2005. Í undirbúningsnefnd eru Halldóra J. og Ásdís J. Rafnar fyrir hönd afkomenda Jónasar, Emilía Sigmarsdóttir frá Landsbókasafni, Terry Gunnell dósent við Háskóla Íslands, Rósa Þorsteinsdóttir frá Árnastofnun og Aðalheiður Guðmundsdóttir formaður Félags þjóðfræðinga, einnig Ögmundur Helgason meðan heilsa hans leyfði. Nefndin leitaði eftir samstarfi við Héraðsskjalasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri, Þjóðminjasafn Íslands, guðfræðideild Háskóla Íslands, þjóðfræðiskor félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, Félag þjóðfræðinga og til fræðimanna í ReykjavíkurAkademíu og Stofnun Árna Magnússonar.

Meðal þess sem nefndin tókst á við var yfirskrift verkefnisins og fyrir valinu varð hending úr erfiljóði Matthíasar Jochumssonar um Jónas „Sú þrá að þekkja og nema ...“ sem lýsa Jónasi og verkum hans vel.

Í sumar stóðu söfnin á Akureyri fyrir sýningu í Amtsbókasafninu og að auki stóð Minjasafnið fyrir kvöldvökum í Laufási, dagskrá að Hrafnagili og gönguferð um minjar og sögu í Eyjafjarðarsveit.

Ólafur J. Engilbertsson, sýningahönnuður hjá Sögumiðlun ehf, hannaði sýningarspjöld sem voru á sýningunni í Amtsbókasafni, svo og þau sem eru hér í safninu, sem prentuð eru hjá Sýningarkerfum ehf. Ólafur hannaði einnig plakat og sýningarskrá. Höfundur sýningartexta á spjöldum er Halldóra J. Rafnar sagnfræðingur, B.A. Sýningarstjóri er Emilía Sigmarsdóttir, fagstjóri menningar og miðlunar í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

Á málþinginu flytja eftirfarandi fræðimenn erindi: Halldóra J. Rafnar: Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Ævi og fjölskylduhagir; Árni Björnsson: Sporgöngumenn Jónasar; Terry Gunnell: Jónas í alþjóðlegu samhengi; Hjalti Hugason: Guðfræðingurinn og presturinn; Viðar Hreinsson: Sögur af vondu fólki. Sagnagerð Jónasar frá Hrafnagili; Rósa Þorsteinsdóttir: „Heimspeki fólksins“. Jónas og þjóðsögurnar. Aðalheiður Guðmundsdóttir stýrir þinginu. Erindin verða gefin út í lok ársins 2006.

Afkomendur Jónasar hafa stutt dyggilega við þetta verkefni – lánað myndir og muni á sýninguna og hjálpað til við heimildaleit svo eitthvað sé nefnt. Þjóðminjasafn Íslands, Héraðsskjalasafnið á Akureyri og Minjasafnið á Akureyri hafa lánað handrit og muni á sýninguna. Þakka ber öllum þeim sem hafa komið að þessu verkefni og ekki síst fyrir stórmannlegt fjárframlag Bjargar Rafnar og Össurar Kristinssonar, og einnig frá Visa Íslandi og Háskólasjóði.

Hér má skoða sýningarspjöld á PDF-formi (1 Mb)

Sýningarskrá PDF (0,7 Mb)

➜ Eldri sýningar