Sýningar

Jólasýning þjóðdeildar

Boðsbréf og bækur – Jólakort, auglýsingar og fleira
1. desember 2006 - 6. janúar 2007

Boðsbréf – bækur
Fyrr á tímum hófst útgáfa bóka og tímarita oft með boðsbréfi. Boðsbréf var áskriftarblað að riti, innihélt kynningu á efni og hverjir stóðu að prentun og útgáfu. Þannig voru boðsbréf send til landsmanna með þeirri áskorun að þau væru sýnd sem flestum.
„Allir, sem fá Boðsbrjef þetta í hendur, eru vinsamlega beðnir að sýna það sem flestum og senda það síðan með árituðum nöfnum kaupenda til næsta útsölumanns bóksalafjelagsins ...“ (Böðvar Kvaran. Auðlegð Íslendinga, 1995, s. 263).
Boðsbréf þekktust frá því um 1800 þar til um miðja 20. öldina. Á sýningunni eru dregin fram nokkur boðsbréf og bækur og tímarit sem bréfunum fylgdu.

Jóla- og nýárskort
Fyrsta jóla- og nýárskortið í heiminum mun hafa komið út 1843. Sendingar jóla- og nýárskorta breiddust mjög hratt út um Evrópu og Ameríku. Fyrstu jólakortin sem komu á markað á Íslandi, skömmu fyrir aldamótin 1900, voru dönsk eða þýsk. Fyrstu íslensku jólakortin komu á markað í byrjun 20. aldar. Aðallega var hér um að ræða kort með myndum af landslagi en síðar komu teiknuð kort til sögunnar. Fjölbreytni í gerð jóla- og nýárskorta hefur vaxið jafnt og þétt gegnum árin. Landslagskort eru enn vinsæl. Íslenskir listamenn eiga stóran hlut í gerð jóla- og nýárskorta.
Á sýningunni má m. a. sjá nokkur skemmtileg jólakort sem varnarliðið hefur væntanlega látið gera á stríðsárunum.

➜ Eldri sýningar