Sýningar

„Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð“. Konungskoman 1907

Fimmtudaginn 31. maí var opnuð í Þjóðarbókhlöðu sýning í tilefni þess að í sumar er öld liðin frá komu Friðriks VIII Danakonungs til Íslands 1907.

Um aðdraganda sýningarinnar „Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð“ er það að segja að hinn 29. júlí er liðin öld frá heimsókn Friðriks VIII Danakonungs til Íslands. Konungur kom ásamt Haraldi syni sínum og fjölda annarra gesta þann dag árið 1907 og dvaldist til 15. ágúst. Sama dag og Friðrik VIII konungur kom skipaði hann nefnd til að semja frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum fyrir Ísland. Árið áður hafði konungur boðið Hannesi Hafstein ráðherra og íslenskum þingmönnum til Danmerkur til að ræða samband landanna. Það dró því verulega til tíðinda fyrir Íslendinga í konungsheimsókninni.

Sýningin lýsir ferðum konungs um landið, en hvar sem hann kom var til þess tekið hversu alþýðlegur og ljúfmannlegur hann var. Myndir sýna aðbúnað, farskjóta, tísku og veður svo eitthvað sé nefnt en í texta er reynt að draga fram atburðarás og andrúmsloft þessa tíma. Það er gott til þess að vita að þjóðin hefur varðveitt margt frá þessari heimsókn sem er ómetanlegt þegar hennar er minnst hundrað árum síðar. Landsbókasafn nýtur góðs af því en Þjóðminjasafn Íslands, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Þjóðskjalasafn Íslands, Seðlabanki Íslands og Vegagerðin hafa lánað ljósmyndir og muni. Einnig hafa frú Sigrún Hafstein, Baldvin Halldórsson, Mark Cohagen, Sverrir Einarsson og afkomendur Sigurðar Kristmanns Pálssonar lánað safninu gögn. Landsbókasafn þakkar öllum þessum aðilum fyrir veitta aðstoð við gerð þessarar sýningar.

Þau sem hafa komið að undirbúningi sýningarinnar eru Mark Cohagen, Jökull Sævarsson, Auður Styrkársdóttir og Helgi Bragason. Hönnuður sýningarspjalda er Ólafur J. Engilbertsson, en sýningarstjóri er Emilía Sigmarsdóttir.

Auk Landsbókasafns styrktu forsætisráðuneytið og Dansk-íslenska viðskiptaráðið sýninguna.

Sýningarskrá á íslensku og dönsku

➜ Eldri sýningar