Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Konur fagna kosningarétti

7. júlí 1915 kom Alþingi saman í fyrsta sinn eftir að konungur hafði staðfest með undirskrift sinni nýja stjórnarskrártillögu frá Alþingi sem færði íslenskum konum og vinnumönnum, 40 ára og eldri, kosningarétt. Forystukonur kvenfélaganna í Reykjavík ákváðu að koma saman á Austurvelli og færa þingi og konungi þakkir fyrir réttindin og gera sér glaðan dag. Hátíðardagskrá var prentuð og dreift meðal fjöldans.

Athöfnin hófst á því að konungi var sent þakkarsímskeyti, en kl. hálf fimm söfnuðust konur saman í Barnaskólaportinu (gamla Miðbæjarskólanum í Lækjargötu) og gengu þaðan inn á Austurvöll með lúðrasveit í fararbroddi. Fremst í göngunni voru 200 hvítklæddar telpur með íslenska fánann, sem þarna sást í fyrsta sinn á fjöldafundi. Á Austurvelli var hátíðardagskrá þar sem ræður fluttu Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ritstýra Kvennablaðsins og formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Ingibjörg H. Bjarnason, skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík.

Tvö skáld ortu ljóð í tilefni dagsins og söngflokkur kvenna söng þau á Austurvelli. Guðmundur skáld Magnússon, öðru nafni Jón Trausti, átti annað ljóðanna og hófst það svo: „Vjer fögnum þjer, hækkandi frelsisins öld!“ Hitt ljóðið samdi María Jóhannsdóttir skáldkona og hófst það svo: „Drottinn, vor guð! Vér biðjum heilu hjarta!“ Jón Trausti var mjög ástsæll höfundur meðal alþýðu, einkum fyrir sögurnar Halla og Heiðarbýlið. María var hjúkrunarkona og virkur félagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Hún gaf út söguna Systurnar í Grænadal árið 1908. Bæði létust fyrir aldur fram, Guðmundur í spænsku veikinni 1918 og María af eftirköstum sömu veiki og berklum árið 1924.

Ræðurnar og nánari lýsingar á hátíðahöldunum má lesa í Kvennablaðinu, 16. júlí 1915.

➜ Eldri kjörgripir