Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Spánverjavígin 1615

„Sönn frásaga af spanskra manna skipbrotum og slagi“ eftir Jón Guðmundsson lærða er varðveitt í níu handritum á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Þar segir af Spánverjavígunum 1615. Ekkert handritanna er frá 17. öld og telur Jónas Kristjánsson að eiginhandarritið muni hafa glatast í brunanum í Kaupmannahöfn 1728, því Árni Magnússon hafi fengið árið 1699 handrit „um spanskra manna dráp á Vestfjörðum“.

Til eru tvær gerðir „Sannrar frásögu“ og telur Jónas Kristjánsson að Jón Guðmundsson lærði hafi samið þær báðar – annaðhvort þá lengri fyrst og stytt hana eða öfugt.  Sú gerð sem Jónas kallar A-gerð er aðeins til í handritinu JS 246 4to (s. 72r-79v), sem séra Snorri Björnsson í Húsafelli skrifaði árið 1792, að eigin sögn „eftir eiginhandarriti Jóns Guðmundssonar lærða“. Handritið Lbs 724 4to (s. 188-221), sennilega skrifað á þriðja áratug 18. aldar, kallar Jónas B1. Þar er höfundur ritsins sagður vera ókunnur. Handritið Lbs 1430 a 4to (s. 19v-29v) var skrifað um 1760. Jónas kallar það B2 og er það að mörgu leyti samhljóða B1, en bæði munu hafa verið skrifuð eftir upprunalega handritinu. Jónas Kristjánsson telur önnur varðveitt handrit „Sannrar frásögu“ ómerkar uppskriftir. Útgáfa Jónasar á riti Jóns lærða kom út í Kaupmannahöfn 1950 undir heitinu Spánverjavígin 1615. Þar er gerðunum tveimur slegið saman og nákvæmur orðamunur sýndur neðanmáls. Textinn er þar með nútímastafsetningu.

Nýlega var „Sönn frásaga“ gefin út að nýju í tilefni af 400 ára minningu Spánverjavíganna, á íslensku, basknesku, spænsku og ensku, með inngangi eftir Má Jónsson. Þar eru báðar gerðirnar en þeim ekki slegið saman líkt og í fyrri útgáfunni. Auk þess eru í útgáfunni fáeinir samtíðartextar sem spruttu af vígunum, konungsbréf, dómar og kærubréf.

http://handrit.is/is/manuscript/imaging/is/JS04-0246/72r-79v#0072r

http://handrit.is/is/manuscript/imaging/is/Lbs04-0724/94v-106r#0094v

http://handrit.is/is/manuscript/imaging/is/Lbs04-1430a/19v-29v#0019v

➜ Eldri kjörgripir