Highlight of the month

Treasures

Barnaspítali Hringsins

Kvenfélagið Hringurinn var stofnað í Reykjavík árið 1904. Það helgaði sig því verkefni að styrkja berklaveika fátæklinga í bænum til að fá læknishjálp og aðra nauðsynlega aðstoð. Árið 1926 reis Hressingarhæli berklasjúklinga í Kópavogi fyrir tilstilli Hringsins. Félagið rak hælið til ársins 1940 er ríkið tók yfir reksturinn.

Frá árinu 1942 hefur Hringurinn helgað sig málefnum barnaspítala. Barnadeild Landspítalans var opnuð 19. júní 1957, en fékk heitið Barnaspítali Hringsins fyrir réttum 50 árum, þann 26. nóvember 1965. Félagskonur öfluðu fjár með margvíslegum hætti, þ.á.m. með sölu jólakorta. Eitt slíkt frá 5. áratug síðustu aldar er varðveitt með öðrum gögnum Hringsins hjá Kvennasögusafni Íslands og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ágústa Pétursdóttir Snæland teiknaði félagsmerki Hringsins, en hún var fyrsti Íslendingurinn sem fullnam sig í auglýsingateiknun.

Hringskonur hafa aflað barnaspítalanum mikils fjár, bæði til kaupa á tækjum og til sérhannaðrar byggingar sem var vígð 26. janúar 2003. Þá fagnaði Hringurinn einnig 99 ára afmæli sínu.

Nánar er fjallað um stofnun og starfsemi kvenfélaga á sýningunni  „Vér heilsum glaðar framtíðinni! sem nú stendur yfir í safninu.

➜ Older highlights