Fréttir

Samið við Skýrr um örugga hýsingu gagna

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur samið við Skýrr um gagnastýringarlausn á sviði hýsingar. Samningurinn felur meðal annars í sér hýsingu fyrir þá starfsemi safnsins sem lýtur að afritun þess á íslenskum vefsvæðum (vefsöfnun). Safnið afritar í dag með reglubundnum hætti öll vefsvæði sem hafa .is-endingu og einnig önnur íslensk vefsvæði. Skýrr hýsir þann vélbúnað er geymir afrit af umræddu vefsafni.

Afritun vefsafns Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns fer fram gegnum öruggt gagnasamband milli Skýrr og safnsins á háhraðaneti. Við undirbúning samstarfsins var lögð mikil áhersla á áreiðanleika, einfaldleika og sjálfvirkni lausnarinnar.

Tölvusalir Skýrr fyrir hýsingu og rekstur eru sérhannaðir og rammgerðir. Þeir eru staðsettir á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, sem gefur möguleika á tvöfaldri afritun og frábæru gagnaöryggi. Rafmagn í sölunum er tryggt með öflugum varaaflgjafa og hnökralausu aðgengi að orku. Hita- og rakastýringar í eldtraustum tölvusölum Skýrr tryggja kjöraðstæður fyrir tölvubúnað, ásamt eldvarnakerfi, reyksogskerfi og yfirþrýstingi á sal til að halda ryki frá.

Starfsemi Skýrr hefur árum saman verið vottuð samkvæmt alþjóðlega gæða- og öryggisstaðlinum ISO 9001, ásamt því sem fyrirtækið er vottað samkvæmt ströngum kröfum VeriSign, sem er samstarfsaðili fyrirtækisins á sviði öryggislausna.

Frá undirritun samningsins: F.v. Davíð Þór Kristjánsson, Ólafur Halldórsson og Þórólfur Árnason hjá Skýrr, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttur, Edda G. Björgvinsdóttir og Bergsteinn Gunnarsson hjá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.

 

➜ Fréttasafn