Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Rjúpuhreiður Ásthildar Guðmundsdóttur og teikningar Muggs

Lestrarfélag kvenna var starfrækt í Reykjavík á árunum 1911–1961 og rak Lesstofu kvenna og Lesstofu barna. Félagsritið Mánaðarrit hóf  göngu sína árið 1912. Í einu hefti þess, skrifað í febrúar 1916, er saga eftir Ásthildi Guðmundsdóttur (1857–1938) sem ber heitið „Rjúpuhreiðrið“. Sögunni fylgja tvær teikningar eftir son hennar, Mugg (Guðmund Thorsteinsson) (1891–1924).

„Rjúpuhreiðrið“ er endurminning Ásthildar frá því að hún var á níunda ári og búsett hjá foreldrum sínum í Kvennabrekku í Miðdölum. Á leið sinni milli bæja einn daginn steig hún ofan í hreiður með 11 eggjum og braut tvö. Þegar hún segir fóstru sinni frá þessu tjáir fóstran henni að þetta muni þýða að Ásthildur muni eignast 11 börn og missa tvö.

„Rjúpuhreiðrinu“ gleymdi Ásthildur en mundi svo eftir því löngu seinna, þegar hún var búin að eignast 11 börn og missa tvö.

Söguna „Rjúpuhreiðrið“ og myndirnar má sjá hér:

Á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru varðveitt einkaskjalasöfn og eru þau aðgengileg á slóðinni www.einkaskjol.is. Mánaðarrit Lestrarfélags kvenna hafa öll verið mynduð og eru aðgengileg hér: http://einkaskjol.is/index.php/lestrarfelag-kvenna-reykjavikur-2

Síðastliðið ár hefur staðið yfir sameiginlegt átaksverkefni handritadeildar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Kvennasögusafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands og héraðsskjalasafna um söfnun á skjölum kvenna. Nú fer því verkefni senn að ljúka en áfram er þó hvatt til þess að skjölum kvenna, og karla, sé haldið vel til haga og afhent skjalasafni til varanlegrar varðveislu. 

➜ Eldri kjörgripir