Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Theodóra Thoroddsen: Þulur

Þulur Theódóru Thoroddsen (1. júlí 1863 – 23. febr. 1954) komu fyrst út árið 1916, fyrir réttum 100 árum. Þulur eru lausbundinn bragarháttur án skiptinga í erindi og oft með ruglingslegum söguþræði. Í gegnum aldirnar hafa þulur gengið mann frá manni og blönduðust oft nýjum þulum. Fyrstu þulur Theodóru komu út í Skírni 1914 og fylgdi hún þeim eftir með bók tveimur árum seinna. Myndskreytingarnar í bókinni eru eftir Guðmund Thorsteinsson (Mugg) og son Theodóru, Sigurð Thoroddsen.

Theódóra útskýrði í blaðagrein að hún hefði valið þuluformið af því að sem 13 barna móðir hafi hún oft þurft að halda eldri börnunum í skefjum á meðan þau yngri sváfu.

Theódóra og eiginmaður hennar, Skúli Thoroddsen (6. Janúar 1859-21. maí 1916), alþingismaður og ritstjóri, voru þekkt fyrir að ala börn sín upp á mun frjálslegri hátt en tíðkaðist á þeim tíma og var jafnan mikið um að vera og mikill gestagangur á heimilinu. Einn afkomandi þeirra hjóna, Ármann Jakobsson, sendi árið 2008 frá sér skáldsöguna Vonarstræti, sem er byggð á tímabili úr ævi þeirra.

 

Hér má lesa útgáfuna frá 1916: Þulur

➜ Eldri kjörgripir