Millisafnalán

Safnið útvegar notendum sínum bækur og tímaritsgreinar frá öðrum háskóla- og rannsóknarbókasöfnum. Bækur eru ekki pantaðar frá Borgarbókasafni eða almenningsbókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu. Athugið einnig að bókasafn Alþingis og söfn ráðuneytanna lána bækur eingöngu á lestrarsal. Bækur sem eru aðgengilegar á safninu, eru ekki afgreiddar í millisafnalán nema til annarra bókasafna. Notendur geta pantað bækur og greinar úr leitarniðurstöðum á Leitir.is með því að skrá sig þar inn.

Ef efni finnst ekki þurfa notendur að biðja um millisafnalán með því að smella á „Millisafnalán” á Leitir.is. Þá opnast eyðublað til að panta bók eða grein. Fylla þarf út öll skyldusvið (*) og velja Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn úr flettilistanum „Bókasafn”. Þetta krefst ekki innskráningar. Beiðnir eru bindandi og því er ósótt efni ávallt gjaldfært á skírteini notenda. Innskráðir notendur geta fylgst með stöðu beiðna á Mínum síðum.

Biðtími og skilafrestur

Biðtími getur verið mjög mismunandi, allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur, eftir því hvert efnið er. Bið eftir greinum er almennt tveir dagar en lágmark vika fyrir bækur. Skilafrestur bóka sem fengnar eru erlendis frá er yfirleitt eftir 3-4 vikur. Kennarar og starfsfólk Háskóla Íslands fær greinar sendar í innanhússpósti, en nemendur og aðrir notendur þurfa að sækja greinar í afgreiðsluborð útlána. Bækur þurfa allir að sækja í afgreiðsluborð.

Innlend söfn

Innlend söfn geta pantað millisafnalán frá safninu. Hægt er að gera það beint af leitir.is. Þegar búið er að finna efnið sem á að panta er farið í Senda til og Tölvupóstur valinn úr felliglugganum. Í nýjum glugga sem opnast er Beiðni um millisafnlán sett undir Efni, setjið netfangið millisafnalan@landsbokasafn.is í Til.  Í athugasemdum ættu síðan að koma fram heiti safns sem pantar og netfang.

Gjaldskrá millisafnalána

Sjá gjaldskrá safnsins.

Kostnaður vegna kennslu og rannsókna starfsmanna Háskóla Íslands færist á reikning viðkomandi deildar, stofnunar eða rannsóknaverkefnis og er innheimtur tvisvar á ári. Reikningar til fyrirtækja og stofnana eru sendir út ársfjórðungslega.