Heimildaleit

Með tilkomu Netsins hefur heimildaleit orðið hvort tveggja í senn, einfaldari og flóknari. Einfaldari vegna þess að í æ fleiri tilvikum er hægt að nálgast upplýsingar frá einkatölvunni en um leið flóknari vegna þess hve erfitt getur verið að finna einmitt það sem þarf hverju sinni. Hver sem er getur sett upplýsingar á Netið og skipta síðurnar hundruðum milljóna. Gæðin eru afar mismunandi og því er nauðsynlegt að vera gagnrýninn á það sem þar finnst. Þótt almennar leitarvélar Netsins, s.s. Google, og Yahoo eða Google Scholar og Scirus sem leita einkum í vísindalegu efni, verði sífellt öflugri,leita þær ekki í ýmsum sérhæfðum gagnasöfnum og skrám, t.d. skrám bókasafna og gagnasöfnum sem kaupa þarf aðgang að.

Mismunandi hjálpargögn og aðferðir eru notaðar við heimildaleit eftir því í hvaða tilgangi upplýsinganna er þörf, hversu ítarlegar og nýjar þær þurfa að vera og hve fljótt þarf að útvega þær. Vantar svar við tiltekinni spurningu, vantar tiltekna bók, doktorsritgerð eða skýrslu? Er verið að afla upplýsinga fyrir skólaritgerð, lokaverkefni í háskóla, rannsóknir, doktorsritgerð eða enn flóknari verkefni? Í öllum tilvikum þarf skýr svör og traustar heimildir. Hafa ber í huga að ýmsar mikilvægar upplýsingar fást ekki án endurgjalds eða eru aðeins til í prentuðu formi og því ekki aðgengilegar á Netinu. Hér á eftir verður vísað á og gerð grein fyrir mismunandi hjálpargögnum og vefsetrum sem kunna að koma að gagni við hvers kyns heimildaleit.

1. Viðfangsefnið skilgreint
2. Heimilda leitað
3. Unnið úr heimildaleitinni

4. Að fylgjast með í faginu


5. Ritun – hjálpargögn


6. Skráning heimilda – tilvísanakerfi

7. Önnur aðstoð
8. Heimildaleit gegn gjaldi

1. Viðfangsefnið skilgreint og grunnupplýsinga aflað

Til að finna finna svör við spurningum, skilgreina viðfangsefnið eða afla grunnupplýsinga um ýmis málefni er gagnlegt að byrja á að nota alfræðirit, s.s. Wikipedia, handbækur, kennslubækur eða önnur uppsláttarrit, prentuð eða rafræn. Orðabækur af ýmsum toga eru einnig mikilvægar á ýmsum stigum heimildaleitar og ritunar til þess að finna og velja rétt hugtök, finna samheiti, athuga stafsetningu orða, skammstafanir o.fl. Gott safn slíkra rita er á handbókasvæði á 2. hæð í Þjóðarbókhlöðu og rafræna handbókahillan vísar á ýmis rafræn gögn.

2. Heimilda leitað

Þegar viðfangsefnið hefur verið skilgreint og búið er að velja heppileg hugtök eða leitarorð er hægt að hefja heimildaleitina sjálfa. Stundum nægja grunnupplýsingar sem finnast í ritum bókasafnsins eða við almenna leit með leitarvélum Netsins. Ef heimildaleitin á aftur á móti að vera ítarleg vegna rannsóknarverkefna eða annarra ritgerða er um ýmis önnur hjálpargögn að ræða:

2. a. Bækur – skrár bókasafna

Skrár bókasafna gefa upplýsingar um safnkost, þ.e. bækur, tímarit, hljóðrit, myndefni o.fl, viðkomandi safns eða safna. Í þeim er hægt er að leita eftir mismunandi aðferðum (einföld leit, ítarleit o.s.frv.) og að mismunandi atriðum (efni, höfundum, titlum, efnisorðum o.fl). 

 • Þjóðbókasöfn og þjóðbókaskrár einstakra landa veita ítarlegar upplýsingar um útgefið efni síns lands. Evrópubókasafnið veitir aðgang að skrám evrópskra þjóðbókasafna.
 • Netbókaverslanir og skrár um fáanlegar bækur eru einnig gagnlegar til að finna og panta nauðsynleg rit.

2. b. Heimildaskrár í bókum og tímaritum

Ef gagnlegar upplýsingar hafa fundist í alfræðiritum, handbókum, tímaritsgreinum eða öðrum ritum er ráðlegt að athuga heimildaskrár aftan við viðkomandi kafla þessara rita. Þar geta verið tilvísanir í önnur heppileg, en reyndar eldri, rit um sama efni. Síðan má athuga í Leitir.is og/eða í Finna tímarit hvort ritin sem vísað er í eru til í íslenskum bókasöfnum.

Efst á síðu

2. c. Tímarit – rafræn og prentuð

Tímaritin eru einn mikilvægasti ritakostur rannsóknarbókasafna. Þau eru af ýmsum toga, bæði almenns og fræðilegs eðlis. Í tímaritum birtast m.a. niðurstöður nýjustu rannsókna, yfirlitsgreinar, sérfræðigreinar, umfjallanir um málefni líðandi stundar og margvíslegt annað efni. Á heimsíðum þeirra eru oft upplýsingar um hvort ritið er ritrýnt, (peer reviewed) og um svonefndan áhrifastuðul, Impact Factor, sem gefur vísbendingu um vægi fræðilegs tímarits innan tiltekinnar fræðigreinar á tilteknum tíma. Gagnagrunnurinn Journal Citation Reports, JCR, reiknar árlega út áhrifastuðul tiltekinna fræðirita. Aðgangur að JCR er opinn á landsvísu. 

Landsbóksafn Íslands – Háskólabókasafn kaupir um 900 tímarit í prentaðri útgáfu og eru mörg þeirra jafnframt aðgengileg í rafrænu formi.

Samningar hafa verið gerðir um aðgang á landsvísu , Landsaðgangur – hvar.is, að rúmlega 17.000 rafrænum tímaritum. Það merkir að allir sem tengjast Netinu um íslenskar netveitur hafa aðgang að heildartextum þeirra án endurgjalds. Landssamningarnir ná til rita eftirfarandi gagansafna, útgefenda og fagfélaga.    

EbscoHost – tímarit frá ýmsum útgefendum og á ýmsum sviðum
Karger – einkum heilbrigðisvísindi
ProQuest – tímarit frá ýmsum útgefendum
Sage - félagsvísindi o.fl.
ScienceDirect - tækni, læknisfræði, raunvísindi o.fl.
SpringerLink -tækni, læknisfræði, raunvísindi o.fl.
Wiley -Blackwell - öll fræðasvið

Allmörg rafræn tímarit eru í séráskrift safnsins og Háskóla Íslands og því eingöngu opin á tölvum á háskólanetinu og í Þjóðarbókhlöðu, svo og þeim notendum háskólanetsins sem hafa VPN forritið í tölvum sínum. Leiðbeiningar um VPN eru á vef Reiknistofnunar Háskólans.

Helstu tímaritapakkar og gagnasöfn með heildartextum í séráskrift :
 ACM – Digital Library  tímarit í tölvunarfræði
 IEEExplore um 230 tímarit í rafmagnsverkfræði
 Emerald 110 tímarit á ýmsum sviðum félagsvísinda
 JSTOR 1500 tímarit á ýmsum fræðasviðum frá upphafsárgangi
 HeinOnline með heildartextum fjölda lögfræðirita
 OECD ilibrary með öllum útgáfuritum OECD

2. d. Tímaritaskrár   – Þarftu að finna tímarit?

Öll þessi tímarit og fjöldi annarra eru aðgengileg í skránni Finna tímarit á vef safnsins. Í skránni má einnig sjá hvaða tímarit eru til á tilteknu fræðasviði. Heildartextar tímarita í séráskrift safnsins og Háskóla Íslands opnast, eins og fyrr segir, aðeins á tölvum á háskólanetinu.  Í Finna tímarit er aðgangur að og upplýsingar um 27 þúsund tímarit:

 • rafræn tímarit í landsaðgangi
 • rafræn tímarit í séráskrift safnsins og Háskóla Íslands
 • rafræn íslensk í timarit.is
 • 10.000 rafræn tímarit sem eru gjaldfrjáls á Netinu (DOAJ)
 • ýmis gjaldfrjáls rafræn tímarit í líf- og læknisfræði
 • upplýsingar um prentuð erlend tímarit sem eru í áskrift safnsins

Í Leitir.is eru upplýsingar um öll helstu prentuð tímarit, íslensk sem erlend, gömul og ný, ásamt tenglum við rafræna útgáfu þeirra þegar hún er fyrir hendi. Í skránni er leitast við að halda til haga tenglum við íslensk vefrit, öðrum en þeim sem eru í timarit.is.

Timarit.is veitir aðgang að um 800 blöðum og tímaritum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi á stafrænu formi. Íslenska efnið er einkum frá árunum 1773-1940.  Þar eru einnig nokkur yngri rit s.s. allflest íslensk dagblöð frá upphafi. Síðustu tveir til þrír árgangar Morgunblaðsins eru þó alltaf undanskildir.
Hægt er að leita í heildartextum allra ritanna samtímis. Leiðbeiningar varðandi leitartækni er að finna í Hjálp á Tímarit.is

DOAJ er skrá sem veitir aðgang að rúmlega 10.000 gjaldfrjálsum rafrænum tímaritum og hægt er að leita að greinum um tiltekið efni í u.þ.b. 1200 þeirra. Aðgangur að þessum tímaritum er einnig í Finna tímarit, skrá safnsins yfir rafræn tímarit. Í Open Access Journals eru um 7000 rafræn tímarit án endurgjalds. 

NOSP – samskrá um tímaritaeign um 1000 bókasafna á Norðurlöndum og í Eystrsaltslöndunum.

ZDB  - Zeitschriften Datenbank er þýsk skrá sem veitir upplýsingar um rúmlega milljón tímarit, alls staðar að, frá 1600 til dagsins í dag.

Greinar í tímaritum sem ekki eru til hér á landi er hægt að útvega með millisafnaláni sem er gegn greiðslu. Millisafnalán eru mun ódýrari en greinaþjónusta sem margir útgefendur veita notendum beint.

Efst á síðu

2. e. Efni tímarita – Tilvísanasöfn og heildartextar

Tímaritaskrár eru notaðar til þess að finna tiltekið tímarit en ekki einstakar tímaritsgreinar. Einstakar tímaritsgreinar eru almennt skráðar í tiltekin gagnasöfn en eru almennt ekki skráðar í skrár bókasafna. Þó hefur efni allmargra íslenskra tímarita verið skráð og finnast því við leit í Leitir.is, almennum hluta.  Undir flipanum Fræðigreinar í Leitir.is  er aftur á móti hægt að leita að erlendum tímaritsgreinum sem eru í Landsaðgangi – hvar.is.   Í tölvum á háskólanetinu og í Þjóðarbókhlöðu er einnig leitað í séráskriftum safnsins og Háskóla Íslands.

Tilvísanasöfn –  Gagnasöfn

Önnur leið, og oft markvissari, til  þess að finna einstakar erlendar fræðigreinar um ákveðið efni eru bókfræðileg gagnasöfn svonefnd tilvísanasöfn. Þau veita einkum upplýsingar um hvað, hver, hvar og hvenær hefur verið skrifað um tiltekið efni og hvar greinar tiltekins höfundar hafa birst. Það eru ýmist fagfélög, opinberar stofnanir eða aðrir hagsmunaaðilar sem standa að slíkum gagnasöfnum. Sum þeirra spanna tiltekið fræðasvið en önnur eru þverfagleg og því er oft talsverð skörun á innihald þeirra.  Í auknum mæli eru þar einnig heildartextar greina ýmist merktir Full Text, PDF eða HTML eða þá krækjur í greinar sem kunna að vera aðgengilegar annnrs staðar. 

Efni sem ekki fæst í safninu er hægt að panta með millisafnaláni sem er gegn greiðslu. Millisafnalán eru ódýrari en greinar sem notendur geta pantað beint frá útgefanda á Netinu

Krækjukerfi safnsins:  
 

Compendex og Web of Science eru dæmi um tilvísansöfn sem krækja í heildartexta greina

Leitarvélarnar Google Scholar og Scirus eru mjög öflugar og leita einkum í vísindalegu efni.  Leit í einstökum gagnasöfnum býður þó almennt upp á  markvissari leitir og niðurstöður.  Þegar heimildaleit þarf að vera ítarleg er yfirleitt nauðsynlegt að leita fanga á fleiri en einum stað.   Leitartækni í gagnasöfnum.

Á vef safnsins eru tenglar í rafrænu gagnasöfnin:

 • Rafræn gögn – titlar A-Ö ásamt stuttri lýsingu á efni og umfangi
 • hægt að flokka þau eftir fræðigreinum miðað við helstu námsbrautir í H.Í. sjá í glugga í hægri dálki síðunnar

Efst á síðu

2. f. Dagblöð – efni dagblaða

Í dagblöðum birtist oft gagnlegt efni. Á vefnum timarit.is er nú hægt að finna öll íslensk dagblöð, fletta þeim síðu fyrir síðu eða leita að efni í heildartextum þeirra.  Morgunblaðið er aðgengilegt frá upphafi nema síðustu tvö til þrú árin, ásamt Lesbókinni.  Nýjustu tölublöð blaðsins ásamt Greinasafni sem nær aftur til ársins 1987 eru á vef blaðsins. Greinasafnið er án endurgjalds, að heildartextum þriggja síðustu ára undanskildum. Gestir safnsins hafa ókeypis aðgang að gjaldsettu efni á tveimur tölvum á 2. og 3.hæð í Þjóðarbókhlöðu.

Fréttablaðið er aðgengilegt bæði í html og pdf sniði og fréttir ýmissa fjölmiðla er hægt að lesa á Vísir.is.  Auk þess er opinn aðgangur að fjölda annarra  íslenskra vefrita  

Á Netinu er hægt að lesa ýmis erlend dagblöð að hluta eða öllu leyti. Internet Public Library, List of  Newspapers og Kiosken veita m.a. aðgang að þeim. Á vef Alþingis eru tenglar við ýmsa fjölmiðla.

Efst á síðu

2. g. Doktorsritgerðir

Í gagnasafninu Dissertation Abstracts Online (DAO) eru upplýsingar um 1,7 millj. doktors- og meistaraverkefni. Þetta eru svo til allar bandarískar doktorsritgerðir frá og með árinu 1861 og ritgerðir frá fjölda annarra háskóla um víða veröld. Dissertation Express veitir almennum notendum leitaraðgang að gögnum síðustu tveggja ára án endurgjalds og þar er hægt að kaupa tilteknar ritgerðir og fá sendar rafrænt eða í prentaðri útgáfu. Æ fleiri doktorsritgerðir eru opnar án endurgjalds á Netinu og finnast með Google og/eða í ýmsum sérskrám og varðveislusöfnum. Í leit að tiltekinni ritgerð má einnig leita í skrám hinna ýmsu háskóla- eða þjóðbóksafna.

 • DIVA-Portal er samstarfsverkefni nokkurra norrænna háskóla sem veitir aðgang, án endurgjalds, að heildartextum fjölda norrænna meistara- og doktorsverkefna.
 • Enn fremur er til skrá um doktorsritgerðir Íslendinga ásamt tenglum við heildartexta þegar þeir eru fyrir hendi.
 • Leitir.is veitir upplýsingar um doktorsritgerðir í eigu íslenskra bókasafna. Ýmis tilvísanasöfn vísa einnig í doktorsritgerðir og annað efni á því sviði sem þau spanna. 

2. h. Einkaleyfi

Í gagnasafni European Patent Office eru tilvísanir í 45 millj. einkaleyfa hvaðanæva. Hægt er að leita í gagnasafninu án endurgjalds og kaupa einstök gögn beint.

2. i . Önnur gagnasöfn og skrár

Auk erlendra gagnasafna og tímarita sem einstaklingar hér á landi hafa aðgang að án endurgjalds er fjöldi annarra skrá og vefja með margvíslegt íslenskt sérefni :

Efst á síðu


2. j. Upplýsingar á Netinu

Leitarvélar á Netinu skipta þúsundum og eru jafn mismunandi og þær eru margar, þ.e. hvar og hvernig þær leita og að hvers konar efni. Þannig geta niðurstöður sömu leitar verið talsvert mismunandi frá einni leitarvél til annarrar. Engin leitarvél leitar í öllu efni á vefnum. Þær leita t.d. hvorki í skrám bókasafna, í gjaldsettum gagnasöfnum né í skrám sem vísa í efni tímarita. Tengjast þarf slíkum skrám sérstaklega og nota leitarbúnað þeirra, sbr. Leitir.is  o.s.frv. Leitarvélin Google er afar öflug en ýmsar aðrar leitarvélar geta í sumum tilvikum hentað jafn vel eða betur. Google Scholar og Scirus leita t.d. eingöngu í fræðilegu efni.  Á Netinu er víða að finna góðar upplýsingar um hvernig mismunandi leitarvélar vinna og hvernig leita má á árangursríkan hátt. Slíkar upplýsingar eru jafnframt í hjálparhnöppu, help eða search tips, flestra leitarvéla.

Metið upplýsingarnar og verið vandlát á það sem þið finnið því gæðin eru afar mismunandi. 

 Efst á síðu

3. Unnið úr heimildaleitinni

Þegar leitað hefur verið í helstu skrám og öðrum hjálpargögnum þarf að skoða og meta árangurinn, ef það hefur ekki verið gert jafnóðum.

Ef útkoman er rýr geta ýmsar ástæður verið fyrir því t.d. að:

 • ekki hefur verið leitað í réttum gagnasöfnum
 • röng eða óheppileg leitarorð hafa verið notuð
 • efnið hefur verið skilgreint of þröngt - of mörg leitaroð
 • lítið hefur verið fjallað um efnið almennt
 • rangri leitartækni beitt

Kynnið ykkur leitarleiðbeiningar, help eða search tips, viðkomandi gagnasafns eða leitarvélar áður en leit er hafin. Smáatriði geta skipt sköpum varðandi leitarheimtur. Leitartækni í gagnasöfnum.

Starfsmenn upplýsingaþjónustunnar upplys@landsbokasafn.is á 2. hæð safnsins aðstoða þá sem þess óska við heimildaleit og boðið er upp á og kennslu af ýmsum toga. Einnig er hægt að panta ítarlegri heimildaleitir gegn greiðslu.

3. a. Upplýsingar metnar

Við almenna leit á Netinu finnast oftar en ekki of miklar upplýsingar. Reynið að meta þær jafnóðum og vistið áhugaverðar slóðir þannig að auðvelt sé að finna þær aftur.

Hver sem er getur sett upplýsingar á Netið og þær eru yfirleitt ekki ritrýndar. Því er mikilvægt að meta trúverðuleika þeirra og notagildi.  Hér skal bent á nokkur atriði sem hafa má í huga.

 • Hver er höfundur síðunnar? Gerir hann grein fyrir sér á einhvern hátt og þekkingu sinni á efninu? Gefur hann upp netfang? Tilheyrir hann t.d. skóla eða stofnun.
 • Hver er eigandi síðunnar? Er hún á vegum opinberra aðila (.gov), menntastofnunar (.edu, .ac), viðskiptaaðila (.com). Skiptir máli hvort hún er íslensk (.is), dönsk (.dk), bresk (.uk) o.s.frv.?
 • Hver er tilgangurinn? Er síðan gerð í hagnaðar- eða viðskiptaskyni, sem fræðsla, áróður eða er um áhugamál einstaklings að ræða?
 • Hvernig er framsetning efnisins? Fræðileg, aþýðleg, málaefnaleg, ítarleg, yfirborðskennd, ýkt eða áróðurskennd ....
 • Hversu nýjar eru upplýsingarnar? Hve nýjar þurfa þær að vera til þess að koma að gagni? Hvenær var síðan síðast uppfærð?
 • Er vísað til heimilda eða í aðrar vefsíður? Er vísað í trúverðugar heimildir? Ber upplýsingum saman við viðtekin viðhorf?

Flest gögn sem bókfræðileg gagnasöfn, tilvísansöfnin, vísa í hafa birst á prenti, m.a. í ritrýndum tímaritum. Eftirfarandi atriði geta skipta máli við mat á þeim:

 • Í hvers konar riti birtist greinin? Fag- eða fræðiriti, ritrýndu tímariti, tímariti almenns efnis ...
 • Hver er titill greinar? Hversu vel virðist hann henta viðfangsefninu. Vísar hann til víðrar/þröngrar umfjöllunar?
 • Hver er höfundur greinarinnar? Er hann þekktur á viðkomandi sviði?
 • Er vísað í heimildir? og í hvers konar heimildir er vísað?
 • Hversu nýtt er efnið? Hversu nýtt þarf það að vera til þess að þjóna tilgangi?

Nánari umfjallanir um mat á heimildum má m.a. finna á  í grein Þórdísar T. Þórarinsdóttur Netið sem heimild og í fjölda erlendra leiðbeininga, t.d.  Evaluating Information fra Meriam University, California.

3. b. Gögn útveguð

Þegar búið er meta afrakstur heimildaleitar á gagnrýninn hátt og velja það sem nýtist við verkefnið, þarf að útvega þau gögn sem eru ekki þegar við hendina en þörf er fyrir.

Ef lítill tími er til stefnu þarf e.t.v. að takmarka sig við nærtækar heimildir, s.s. það sem til er í bókasafninu og rafrænar fræðigreinar sem finnast við leit í Leitir.is 

Ef tíminn er aftur á móti nægur er hægt að panta bækur og önnur gögn hjá íslenskum eða erlendum bóksölum eða biðja bókasafnið að útvega bækur eða ljósrit með millisafnaláni sem er gegn greiðslu.

Efst á síðu

4. Fylgst með í faginu

Fræðimenn beita ýmsum aðferðum við að fylgjast með á sínu sviði, s.s. fletta nýjum tímaritsheftum og bókum, skiptast á skoðunum á vinnustað og ráðstefnum eða nota einhverja af hinum mörgu möguleikum sem rafræn samskipti bjóða upp á, svo sem árvekniþjónustur og fréttaveitur. Sjá nánar í: Að fylgjast með í faginu og halda utanum heimildirnar.

4. a. Árvekniþjónusta - áskrift að nýjum upplýsingum

Bókaverslanir og flestir útgefendur og dreifingaraðilar bóka, tímarita og gagnasafna, bjóða upp á rafræna þjónustu, án endurgjalds, til þess að auðvelda mönnum að fylgjast með því nýjasta sem birtist á því sviði sem þeir skilgreina. Þetta nefnist árvekniþjónusta, alert, ToC alert eða current awareness, og þurfa notendur fyrst að skrá sig, register eða sign in, þ.e. opna eigið svæði á heimasíðum viðkomandi útgefenda eða gagnasafns. Þjónustan felst einkum í því að þessir aðilar senda:

 • tengil við efnisyfirlit tímarita (ToC= Table of Contents) jafnóðum og nýtt hefti kemur út
 • upplýsingar um nýjar greinar eða bækur um efni sem notandinn hefur skilgreint

4. b. Póstlistar – umræðuhópar

Á Netinu er fjöldinn allur af póstlistum og umræðuhópum af ýmsu tagi, s.s. ritstýrðir listar, opnir listar eða lokaðir.
Gagnlegar skrár um mismunandi lista:
TILE.NET – E-mail List Directory
Topica

5. Ritun – hjálpargögn

Í bókasafninu eru ýmis leiðbeiningarit bæði á íslensku og erlendum málum um ritgerðasmíð, tilvitnanir, skráningu heimilda, uppsetningu heimildalista, o.s.frv. Þau standa með ritum um stílfræði í flokknum 808.02 á handbókrými á 2. hæð og útlánseintök eru á 4. hæð safnsins. 

Leiðbeiningavefur Ritvers Menntavísindasvið gefur góðar upplýsingar um  öll þessi atriði. 

Einnig getur komið sér vel að þekkja Ritreglur frá Íslenskri málstöð, reglur um stafsetningu og greinamerkjasetningu og skoða Beygingalýsingar  íslensks nútímamáls.

Á Netinu er auk þess fjöldinn allur af leiðbeiningum á ensku m.a.:

Efst á síðu

6. Skráning heimilda – heimildaskráningarkerfi

Nauðsynlegt og skylt er að geta heimilda sem stuðst er við og/eða vitnað er til. Bæði vegna höfundarréttar og til þess að sýna á hvaða gögnum eða hugmyndum niðurstöður eru byggðar. Heimildaskráin gefur ennfremur vísbendingu um heimildavinnu höfundar og vísar lesandanum á efnið.

Við heimildaleit er góð regla að vista eða skrá jafnóðum upplýsingar um efni sem nýtist við úrlausn verkefnis og vísa þarf til í heimildaskrá. Það getur sparað mikla vinnu síðar. Þetta eru upplýsingar sem gera lesandanum kleift að finna gögnin sem notuð voru. Þær má kalla „heimilisfang“ heimildarinnar, þ.e.a.s. upplýsingar um hver skrifaði hvað, hvar það birtist og hvenær. Þessi atriði geta þó verið mismunandi eftir því um hvers konar gögn er um að ræða.

Heimildaskráningarkerfi eru forrit sem hjálpa notendum að halda utan um heimildir, útbúa eigin gagnasöfn og setja upp heimildalista eftir mismunandi stöðlum. Niðurstöður leita í stærstu gagnasöfnunum, s.s.  ProQuest, Ovid og Web of Science, er hægt að flytja beint yfir í þessi forrit.

Þegar kemur að því að skrifa ritgerð, t.d. í Word, er hægt að sækja tilvísanir í heimildirnar sem vitnað er í jafnóðum (cite while you write) þ.e. eiginleg hoppa á milli t.d. Word og EndNote og útbúa heimildaskrána jafnóðum. Heimildaskrána má setja upp eftir öllum helstu stöðlum, breyta og bæta með lítilli fyrirhöfn.

Að fylgjast með í faginu og halda utanum heimildirnar

 

6. a. Uppsetning heimildalista – tilvitnanir – tilvísanakerfi

Mismunandi reglur eru milli fræðigreina um uppsetningu heimildalista og röð atriða sem þar þurfa að koma fram. APA staðallin virðist þó einna útbreiddastur. Kynnið ykkur venjur eða reglur í ykkar fagi. Eins og fyrr segir eru í safninu, í flokknum 808.02, ýmis rit með leiðbeiningum um ritun og skráningu heimilda. Hér á eftir er vísað í nokkra erlenda staðla (tilvísanakerfi) sem taka ýmist til prentaðra heimilda og/eða rafrænna:

Leiðbeiningar á Vísindavefnum um tilvitnanir í veflægt efni

6. b. Höfundarréttur – Ritstuldur

Höfundarréttur er réttur höfundar til að ráða yfir verki sínu og er notkun óheimil án leyfis hans eða samkvæmt samningum við samtök höfunda. Brot á höfundalögum, t.d. birting án leyfis, getur þýtt kostnað og óþægindi fyrir þann sem það gerir. Höfundarréttur gildir í 70 ár frá andláti höfundar. Á vef Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, er einnig fjallað um höfundarrétt og rafræna miðlun.

6. c. Ljósritun

Höfundalög kveða m.a. á um að ekki megi ljósrita úr útgefnum ritum nema með leyfi höfunda. Þó er gerð undantekning með ljósritun til einkanota. Á vef Fjölíss, hagsmunafélags samtaka rétthafa að verkum sem njóta höfundaréttar og nýtt eru með ljósritun o.fl. er að finna upplýsingar um hvað má ljósrita og hvað ekki samkvæmt samningum þess.

Efst á síðu

7. Önnur aðstoð

Starfsmenn upplýsingaþjónustu safnsins veita þeim sem þess óska einstaklingsbundnar leiðbeiningar og aðstoð við heimildaleit án endurgjalds. Ef tryggja á að starfsmaður sé til reiðu þegar ykkur hentar er best að panta slíka aðstoð fyrirfram með tölvupósti upplys@landsbokasafn.is eða í síma upplýsingaþjónustunnar, 525 5685. Ennfremur er boðið upp á safnkynningar og kennslu af ýmsum toga. fyrir stóra sem smáa hópa.

Kennsluvefir í upplýsingalæsi, leiðbeiningar og próf

Intute – Virtual Training Suite – breskur kennsluvefur
Kennsluvefur í upplýsingalæsi – vefur frá Upplýsingu
Scholarly Guide to Google – vefur frá Harvard
UB TESTEN – danskt próf í upplýsingafærni 
Viko – your guide to information literacy – vefur frá NorgesTeknisk-naturvitenskapelige Universitet
Tölvunám – Kennsluvefur H.Í. – ýmis forrit

8. Heimildaleit gegn gjaldi.

Starfsmenn upplýsingaþjónustu safnsins taka einnig að sér að gera ítarlegar í hinum ýmsu gagnasöfnum gegn greiðslu.

Efst á síðu