Vinnuaðstaða

Landsbókasafn Íslands - Háskólabóksafn er til húsa í Þjóðarbókhlöðunni við Birkimel í vesturbæ Reykjavíkur. Þar er fyrsta flokks aðstaða til náms og rannsókna og greiður aðgangur að safnkostinum.

Lesborð

Lesaðstaða er á öllum hæðum hússins, um 430 sæti við einstaklingslesborð. Á 3. og 4. hæð eru auk þess borð þar sem allt að fjórir geta setið saman. Óheimilt er að helga sér þau, en notendur geta yfirgefið borð í eina klst. án þess að missa það með því að stilla klukku sem er á flestum borðum. Á próftíma hafa nemar við Háskóla Íslands forgang að merktum borðum á 3. og 4. hæð. Lesborð í handbókarými á 2. hæð eru fyrir þá sem eru að nota handbækur og uppsláttarrit, en þau rit eru aðeins til notkunar á staðnum. Þar hafa einnig verið sett upp hringborð sem eru ætluð undir hópvinnu. Á því svæði má því tala saman. Lesborð í handritasafni og Íslandssafni eru ætluð þeim sem eru að nota gögn viðkomandi safna.

Tölvur og Internet

Á opnum svæðum á 3. og 4. hæð safnsins og í lestrarsal eru tölvur til afnota fyrir safngesti. Þær veita aðgang að gagnasöfnum, Leitir.is, ritvinnslu í Word, forritunum Excel og Power Point og öðrum forritum í Office 2013. Þeir sem hafa notendanafn og aðgangsorð að háskólanetinu, geta vistað skjölin á heimasvæði sitt í háskólanum. Þeir hafa einnig aðgang að Internetinu.

Í Þjóðarbókhlöðu er þráðlaust net sem allir geta tengst með eigin fartölvu. Þeir sem hafa aðgang að Eduroam komast auk þess inn á Internetið í notendatölvum safnsins. Aðrir geta notfært sér Internetið í tveimur tölvum á 2. hæð.

Lesherbergi og hópvinnuherbergi

Á 3. og 4. hæð eru 26 lesherbergi sem fyrst og fremst eru ætluð fræðimönnum, nemendum í framhaldsnámi á háskólastigi og öðrum sem vinna að ákveðnum verkefnum og þurfa að nota rit safnsins í því skyni. Í 5 herbergjum eru tölvur með aðgangi að ritvinnslu, Netinu o.fl. Sækja skal um lesherbergi á sérstökum eyðublöðum á heimasíðu safnsins (sjá reglur um úthlutun og gjaldskrá). Lesherbergi fyrir hreyfihamlaða er á 4. hæð nr. 28.

Þrjú hópvinnuherbergi eru í safninu, eitt á 3. hæð og tvö á 4. hæð. Þau taka 3-10 manns. Hægt er að bóka hópvinnuherbergi á bókunarvef safnsins.

Prentun og ljósritun

Almennir notendur, sem ætla að prenta skjöl sín geta prentað úr tölvum safnsins á prentara sem er staðsettur í þjónustuborði. Prentuð skjöl eru afhent við afgreiðslu útlána (sjá gjaldskrá). Nemendur við Háskóla Íslands fá úthlutað notendanafni og aðgangsorði hjá Nemendaskrá í aðalbyggingu Háskólans. Prentkvóta er hægt að kaupa hjá Nemendaskrá.

Ljósritunarvélar eru á öllum hæðum hússins. Um er að ræða sjálfsalavélar og eru kort í þær seld  á 2. hæð (sjá gjaldskrá). Kynnið ykkur þær reglur sem gilda um ljósritun úr verkum annarra samkvæmt samningi Fjölíss og menntamálaráðuneytisins.

Lesvélar

Lesvélar til að lesa og prenta efni á filmum eru á 3. hæð og í lestrarsal á 1. hæð. Hluti íslenskra dagblaða og tímarita er varðveittur á filmum.

Geymsluskápar

Samtals eru um 150 geymsluskápar til afnota fyrir gesti til að geyma í vinnugögn sín. Lyklar eru afhentir við útlánaborð á 2. hæð gegn framvísun bókasafnsskírteinis og greiðslu tryggingargjalds (sjá gjaldskrá). Óheimilt er að geyma rit safnsins í skápunum nema þau hafi fyrst verið fengin að láni um bókasafnskerfi safnsins. Rit sem eru til notkunar á staðnum má ekki geyma þar. Geymið aldrei matvæli í skápunum.

Húsreglur

Bókasafnið er opið öllum sem fara eftir reglum þessum.

  • Safngestir eru hvattir til að ganga vel um bókasafnið og fylgja almennum umgengnisreglum.
  • Neysla matar og drykkja á lessvæðum safnsins og á stigagöngum er óheimil svo og öll meðferð matar og drykkja í opnum ílátum. Þó er leyfilegt að vera með vatn í lokuðum, glærum ílátum á lesrýmunum á 2., 3. og 4. hæð.
  • Látið farsíma ekki hringja og talið ekki í síma á lesrýmum safnsins.
  • Spjallið ekki saman að óþörfu eða á skilgreindum þöglum svæðum.
  • Óheimilt er að taka frá lesborð. Standi lesborð ónotað í klukkustund eða lengur er starfsfólki heimilt að rýma borðið.
  • Skráið safngögn í lán á nafn ykkar og virðið útlánstímann.
  • Læsið ekki óskráð gögn inni í lesherbergjum eða geymsluskápum.
  • Farið vel með safnkostinn og annan búnað safnsins. Undirstrikanir og annað krot í bækur og tímarit er ekki leyft.
  • Hengið ekki fatnað á veikbyggðar gluggahlífar safnsins. Notið stólbök eða fatahengið á 2. hæð.

Sjá einnig reglur um lessal á 1. hæð.

Eftirlit

Þjóðarbókhlaðan er búin eftirlitskerfi til að koma í veg fyrir að farið sé með bækur út úr byggingunni í leyfisleysi. Eftirlitsmyndavélar eru víða staðsettar í byggingunni.