Vinnuaðstaða

Landsbókasafn Íslands - Háskólabóksafn er til húsa í Þjóðarbókhlöðunni við Birkimel í vesturbæ Reykjavíkur. Þar er fyrsta flokks aðstaða til náms og rannsókna og greiður aðgangur að safnkostinum.

Lesborð

Lesaðstaða er á öllum hæðum hússins, um 430 sæti við einstaklingslesborð. Á 3. og 4. hæð eru auk þess borð þar sem allt að fjórir geta setið saman. Óheimilt er að helga sér þau, en notendur geta yfirgefið borð í eina klst. án þess að missa það með því að stilla klukku sem er á flestum borðum. Á próftíma hafa nemar við Háskóla Íslands forgang að merktum borðum á 3. og 4. hæð. Lesborð í handbókarými á 2. hæð eru fyrir þá sem eru að nota handbækur og uppsláttarrit, en þau rit eru aðeins til notkunar á staðnum. Þar hafa einnig verið sett upp hringborð sem eru ætluð undir hópvinnu. Á því svæði má því tala saman. Lesborð í handritasafni og Íslandssafni eru ætluð þeim sem eru að nota gögn viðkomandi safna.

Tölvur og Internet

Á 1. hæð í lestrarsal Íslandssafns:
Aðgangur að Interneti og forritum í Office 2013.

Á 2. hæð:
Fyrir framan fyrirlestrarsal: Aðgangur að Interneti (15 mín.)
Á móti þjónustuborði: Aðgangur að Interneti (30 mín.). Aðgangsorð í þjónustuborði.

Á 3. hæð:
Í lesrými: Fyrir nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands með aðgangsorð og notendanafn að háskólanetinu. Umsjón með tölvunum hefur upplýsingatæknisvið HÍ.
Fyrir framan þjónustuborð: Aðangur að rafrænum tímaritakosti safnsins, Tímarit.is og greinasafni Morgunblaðsins.

Á 4. hæð:
Í lesrými: Fyrir nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands.
Við hlið Hljóð- og myndsafns: Tölvur fyrir almenna notendur með aðgangi að forritum í Office 2013 (ekki aðgangur að Interneti). Hægt er að nota USB minnislykla.

Auk þess eru leitartölvur fyrir leitir.is á öllum hæðum.

Í Þjóðarbókhlöðu er þráðlaust net (LBS_HBS/HotSpot) sem allir geta tengst með eigin fartölvu/snjalltæki.

Lesherbergi og hópvinnuherbergi

Á 3. og 4. hæð eru 26 lesherbergi sem fyrst og fremst eru ætluð fræðimönnum, nemendum í framhaldsnámi á háskólastigi og öðrum sem vinna að ákveðnum verkefnum og þurfa að nota rit safnsins í því skyni. Í 5 herbergjum eru tölvur með aðgangi að ritvinnslu, Netinu o.fl. Sækja skal um lesherbergi á sérstökum eyðublöðum á heimasíðu safnsins (sjá reglur um úthlutun og gjaldskrá). Lesherbergi fyrir hreyfihamlaða er á 4. hæð nr. 28.

Þrjú hópvinnuherbergi eru í safninu, eitt á 3. hæð og tvö á 4. hæð. Þau taka 3-10 manns. Hægt er að bóka hópvinnuherbergi á bókunarvef safnsins.

Prentun og ljósritun

Almennir notendur, sem ætla að prenta skjöl sín geta prentað úr tölvum safnsins á prentara sem er staðsettur í þjónustuborði. Prentuð skjöl eru afhent við afgreiðslu útlána (sjá gjaldskrá). Nemendur við Háskóla Íslands fá úthlutað notendanafni og aðgangsorði hjá Nemendaskrá í aðalbyggingu Háskólans. Prentkvóta er hægt að kaupa hjá Nemendaskrá.

Ljósritunarvélar eru á 2., 3. og 4. hæð hússins. Um er að ræða sjálfsalavélar og eru kort í þær seld  á 2. hæð (sjá gjaldskrá). Á 1. hæð ljósritar starfsfólk Íslandssafns fyrir notendur sem greiða fyrir hvert blað.
Kynnið ykkur þær reglur sem gilda um ljósritun úr verkum annarra samkvæmt samningi Fjölíss og menntamálaráðuneytisins.

Lesvélar

Lesvélar til að lesa og prenta efni á filmum eru á 3. hæð og í lestrarsal á 1. hæð. Hluti íslenskra dagblaða og tímarita er varðveittur á filmum.

Geymsluskápar

Samtals eru um 150 geymsluskápar til afnota fyrir gesti til að geyma í vinnugögn sín. Lyklar eru afhentir við útlánaborð á 2. hæð gegn framvísun bókasafnsskírteinis og greiðslu tryggingargjalds (sjá gjaldskrá). Óheimilt er að geyma rit safnsins í skápunum nema þau hafi fyrst verið fengin að láni um bókasafnskerfi safnsins. Rit sem eru til notkunar á staðnum má ekki geyma þar. Geymið aldrei matvæli í skápunum.

Húsreglur

Bókasafnið er opið öllum sem fara eftir reglum þessum.

  • Safngestir eru hvattir til að ganga vel um bókasafnið og fylgja almennum umgengnisreglum.
  • Neysla matar og drykkja á lessvæðum safnsins og á stigagöngum er óheimil svo og öll meðferð matar og drykkja í opnum ílátum. Þó er leyfilegt að vera með vatn í lokuðum, glærum ílátum á lesrýmunum á 2., 3. og 4. hæð.
  • Látið farsíma ekki hringja og talið ekki í síma á lesrýmum safnsins.
  • Spjallið ekki saman að óþörfu eða á skilgreindum þöglum svæðum.
  • Óheimilt er að taka frá lesborð. Standi lesborð ónotað í klukkustund eða lengur er starfsfólki heimilt að rýma borðið.
  • Skráið safngögn í lán á nafn ykkar og virðið útlánstímann.
  • Læsið ekki óskráð gögn inni í lesherbergjum eða geymsluskápum.
  • Farið vel með safnkostinn og annan búnað safnsins. Undirstrikanir og annað krot í bækur og tímarit er ekki leyft.
  • Hengið ekki fatnað á veikbyggðar gluggahlífar safnsins. Notið stólbök eða fatahengið á 2. hæð.

Sjá einnig reglur um lessal á 1. hæð.

Eftirlit

Þjóðarbókhlaðan er búin eftirlitskerfi til að koma í veg fyrir að farið sé með bækur út úr byggingunni í leyfisleysi. Eftirlitsmyndavélar eru víða staðsettar í byggingunni.