Sigurður Ólafsson – „Svanurinn minn syngur“

Sigurður Ólafsson var fæddur í Reykjavík 4. desember 1916 og lést 13. júlí 1993. Hann var lengi einn þekktasti söngvari þjóðarinnar. Á liðlega 50 ára söngferli sínum söng hann í kórum, við jarðarfarir, með danshljómsveitum og á söngskemmtunum. Auk þess söng hann nokkur óperuhlutverk og önnur sönghlutverk í Þjóðleikhúsinu og tók meðal annars þátt í fyrstu uppfærslu Þjóðleikhússins á óperunni Rígólettó. Sigurður söng einnig inn á fjölda hljómplatna. Sigurður Ólafsson syngur íslensk sönglög er 78 snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Á henni syngur Sigurður þrjú sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns (1881–1946) við píanóundirleik Carls Billich (1911–1989), „Sprengisand“ og „Kveldriður“, bæði lögin við ljóð eftir Grím Thomsen (1820–1896) og „Svanurinn minn syngur“ við ljóð Höllu Eyjólfsdóttur (1866–1937). Platan er hljóðrituð í mono. Upptakan var gerð í Ríkisútvarpinu. AS Nera í Osló sá um pressun. Mynd af Sigurði Ólafssyni er af Wikipediu, birt með leyfi Senu.

Tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns útskrifaðist úr Læknaskólanum í Reykjavík eftir embættispróf 1908. Hann var einn vetur læknir í Danmörku og annan á Hólmavík, en frá 1910-1921 á Ármúla í Nauteyrarhéraði í Norður-Ísafjarðarsýslu þar sem hann tók sér nafnið Kaldalóns og fór að semja sönglög. Sigvaldi var síðar læknir í Flatey og  í Grindavík. Halla skáldkona á Laugabóli hét fullu nafni Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir og var fædd í Gilsfjarðarmúla, Geiradalshreppi en fluttist að Laugabóli með manni sínum, Þórði Jónssyni. Sonur Höllu, Sigurður Þórðarson, var einn besti vinur Sigvalda Kaldalóns og varð fyrstur til að gefa út sönglög hans, 1916-18. Ljóðmæli Höllu komu fyrst út árið 1919, kostuð af Sigurði. Fyrsta kvæði bókarinnar er „Svanurinn minn syngur“, við lag Kaldalóns, en það hafði birst fyrst í þriðja sönglagahefti hans 1918. Tilefni kvæðisins segir Sigurður að hann hafi verið að skjóta fugla. Þá á Halla, móðir hans, að hafa sagt: „Ef þið drepið svan, þá eruð þið morðingjar.“

Á Hljóðsafni Landsbókasafns má hlýða á Sigurð Ólafsson flytja „Svanurinn minn syngur“:

http://hljodsafn.landsbokasafn.is/audioFileDisplay/5228?ui-lang=is

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Lokaðar dyr - leikmynd eftir Lothar Grund

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Skjalasafn Hringsins

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Ein ný sálmabók 1589

Eldri kjörgripur

Sjá nánar

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall