Eru þetta okkar jól? Ávarp Rauðsokka 1974

Á Þorláksmessu árið 1974 fóru rauðsokkur um miðbæinn, dreifðu ávarpi, hengdu örþreytta tuskuhúsmóður upp í jólatré í Austurstræti og spurðu konur sem voru í innkaupaleiðangri: Eru þetta okkar jól?

Rauðsokkur stefndu að því að vekja með öllum ráðum athygli á bæði augljósu og földu misrétti kynjanna, svo og kúgun sem ætti sér rætur í þjóðfélagsgerð og fjölskylduhefðum. Skipulag rauðsokka stríddi framan af gegn hefðbundnu félagaformi, enda töldu meðlimir það vera form sem hefti umræður og skoðanaskipti. Hreyfingin kaus enga/nn (karlmenn gátu líka verið meðlimir) formann, hélt engar fundargerðarbækur og þeir hópar sem upp spruttu gerðu það af sjálfdáðum.

Rauðsokkahreyfingin var stofnuð árið 1970 og fór fyrsta aðgerð hópsins fram þann 1. maí sama ár þegar hópurinn hvatti konur til að mæta í göngu verkalýðsfélaganna í Reykjavík og auglýstu í útvarpinu: „Konur á rauðum sokkum! Komið í 1. maí gönguna.“ Konur báru risastóra styttu af konu í göngunni með stórum borða strengdan yfir bumbuna. Á honum stóð: Manneskja - ekki markaðsvara. Helstu baráttumál þeirra voru m.a. barneignir, getnaðarvarnir og frjálsar fóstureyðingar, barnaheimili og barnauppeldi, heimahúsmæður og mat á heimilisstörfum og bætt kjör kvenna á vinnumarkaði.

Kvennasögusafn Íslands var stofnað aðeins nokkrum dögum eftir Þorláksmessuaðgerðina. Skjalasafn rauðsokka er varðveitt á Kvennasögusafni en þær voru fyrstu gestir safnsins þegar þær komu í leit að heimildum þann 5. janúar, eins og stendur í dagbók safnsins: „Fyrstu 4 gestir safnsins komu - rauðsokkar - í leit að heimildum vegna ýmissa ráðagerða þeirra um störf á kvennaárinu, t.d. vegna verkakvenna og vinnusamninga. Sömuleiðis um alþjóðasamþykkt og yfirlýsinguna."

200 ára | 1818-2018

Ritgerð og teikningar Sölva Helgasonar

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Spánverjavígin 1615

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
Netspjall