Ljóðaverðlaunin Maístjarnan afhent

21.05.2019

Ljóðaverðlaunin Maístjarnan sem Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn stendur að ásamt Rithöfundasambandi Íslands, voru afhent í þriðja sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 20. maí.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2018 hlýtur Eva Rún Snorradóttir fyrir ljóðabók sína Fræ sem frjóvga myrkrið.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir: 

„Fræ sem frjóvga myrkrið (Benedikt bókaútgáfa, 2018) er frumleg og fjölbreytt ljóðabók þar sem skáldið Eva Rún Snorradóttir bregður á leik með ýmis form, allt frá örleikritum til prósaljóða. Fyrri hluti bókarinnar er margradda lýsing á ferð vinkvenna til sólarlanda sem reynist í senn nöturleg og fyndin. Síðari hlutinn er einlægari og myndrænni og þar eru ljóð sem lýsa vináttu, sársauka, sjálfsuppgötvun og annarlegum heimi á áleitinn hátt. Þannig beitir Eva Rún ólíkum sjónarhornum og formum sem sameina hið ljóðræna og leikræna og nær með því að draga upp sterka og margræða mynd af heiminum sem hreyfir við lesandanum.“


Til baka

Netspjall_

Vinsamlegast kynntu þig með nafni og netfangi.

Spjallið er opið 9:00 - 16:00 virka daga.

Hleður spjall...
Netspjall