Det kimer nu til julefest

Elsa Sigfúss er að öllum líkindum sá íslenski tónlistarmaður sem sungið hefur inn á flestar plötur en staðfest er að um hundrað og tuttugu plötur séu til útgefnar með söng hennar. Allt eins er líklegt að þær séu fleiri enda starfaði Elsa allan sinn söngferil í Danmörku, plötur hennar voru flestar gefnar út fyrir danskan markað og því erfiðara en ella að skrásetja alla hennar útgáfusögu.

Elsa Sigfúss (Elsa Sigfúsdóttir) var fædd 1908, dóttir Sigfúss Einarssonar tónskálds (1877-1939) og Valborgar Einarsson (1883-1969), sem var dönsk (fædd Hellemann), söngkona og píanóleikari. Elsa fæddist í Reykjavík en flutti ung til Danmerkur ásamt fjölskyldu sinni og hlaut tónlistarlegt uppeldi. Elsa lærði á píanó og selló og lék m.a. á selló með Hljómsveit Reykjavíkur í upptökum gerðum í tilefni af Alþingishátíðinni 1930. Þær upptökur voru gefnar út og eru frumraun hennar á plötu.

Fyrsta plata Elsu kom út 1937 og var um að ræða 78 snúninga plötu rétt eins og langflestar þær plötur sem út komu með söng hennar. Fyrri hluti söngferils Elsu var einkum undirlagður klassískri trúartónlist en síðar lagði hún einnig áherslu á dægurlög og mun hún hafa verið með vinsælli dægurlagasöngvurum Danmerkur í kringum og fram yfir 1950. Söngferill Elsu Sigfúss spannaði áratugi, en hún hætti að syngja opinberlega síðla árs 1964. Þótt Elsa hafi fyrst og fremst verið söngkona fékkst hún einnig við að semja tónlist. Hún hlaut fálkaorðuna 1961 fyrir framlag sitt til sönglistarinnar. Elsa Sigfúss lést 1979.

Elsa varð fyrst íslenskra kvenna til að syngja jólalag á plötu en það var lagið Heims um ból (1945), reyndar hafði hún einnig sungið jólalög á dönsku fjórum árum fyrr. Það voru Et barn er født i Bethlehem, danskt lag eftir Andreas Peter Berggreen (1801-1880) við ljóð N. F. S. Grundtvig (1783-1872) og Det kimer nu til julefest, lag sem einnig er danskt, eftir Carl Christian Nicolaj Balle (1806-1855) sem einnig er við ljóð N. F. S. Grundtvig (1783-1872). Hér má hlýða á lagið í flutningi Elsu Sigfúss frá 1941, en það er þekkt hér á landi sem skírnarsálmurinn (Sálmur 252), Ó, blíði Jesú blessa þú sem Valdimar Briem samdi ljóð við.

 

 

Fyrri kjörgripir


200 ára | 1818-2018

Prentmyndasafn Ólafs Hvanndal í handritasafni

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Geltandi vatn

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Dánarósk Hólmfríðar Benediktsdóttur

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
200 ára | 1818-2018

Elsa Sigfúss

Eldri kjörgripur

Sjá nánar
Netspjall